143. löggjafarþing — 12. fundur,  30. okt. 2013.

almenn hegningarlög.

109. mál
[16:16]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni. Ég held að það sé, líkt og hv. þingmaður kom inn á, að á meðan upp eru taldir ákveðnir hópar í hegningarlögum sem eiga að njóta sérstakrar verndar sé ástæða til að taka mið af þeim óskum sem komið hafa fram, bæði hér heima og annars staðar, um mikilvægi þess að þetta orð, kynvitund, sé einnig talið upp í hegningarlögunum. Þess vegna vona ég innilega að þingið klári málið hratt og örugglega og að við bjóðum þessum hópi sömu réttarstöðu og öðrum einstaklingum.