143. löggjafarþing — 12. fundur,  30. okt. 2013.

almenn hegningarlög.

109. mál
[16:16]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Eins og flokkssystir mín hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir fagna ég þessu máli innilega. Þetta er eitt af þessum litlu málum sem láta lítið yfir sér og sérhver hefur sinn eigin smekk. Minn smekkur er sá að ég tel að þetta sé langmerkilegasta málið sem enn hefur komið fram á þessu þingi. Það brýtur í blað og ég hrósa hæstv. ríkisstjórn sérstaklega fyrir að leggja þetta mál fram og gera það eitt af sínum fyrstu verkum. Hæstv. innanríkisráðherra hefði ekkert endilega þurft að leggja þetta mál fram núna eða yfir höfuð, en hún gerði það og verðskuldar sérstakt lof fyrir það.

Þetta mál er lagt fram af tvenns konar ástæðum. Önnur er sú að Ísland hefur staðfest viðbótarbókunina við samning Evrópuráðsins um tölvuglæpi en sömuleiðis er þetta framhald af vinnu fyrri ríkisstjórna — í fleirtölu, því tvær fyrri ríkisstjórnir höfðu í reynd lagt gjörva hönd að þessu máli og það komst sérstaklega á flug á síðasta kjörtímabili. Þetta er mjög mikilvægt mál. Það tekur á réttindum örfámenns minni hluta. Ég er þeirrar skoðunar að mælikvarði á gæði samfélags sé meðal annars hvernig tekið er á réttindum lítilla minnihlutahópa. Þegar það er gert og menn bera virkilega virðingu fyrir þeim og leggja sig í framkróka um að tryggja réttarstöðu þeirra þá er samfélag yfirleitt bærilega gott. Og okkar samfélag er gott samfélag. Það er mikilvægt í þessu samhengi að gera algerlega skýran greinarmun á því að kynvitund er allt annað en kynhneigð en það er skammt síðan menn rugluðust á þessu tvennu í umræðunni.

Með þessu frumvarpi hæstv. innanríkisráðherra er það gert refsivert að laska í reynd orðstír, heiður eða sjálfsvirðingu einstaklings vegna kynvitundar. Það skiptir miklu máli, það skiptir sérstaklega miklu máli fyrir ungt fólk sem á við kynáttunarvanda að stríða vegna þess að það lendir oft í mjög þungbærum félagslegum erfiðleikum sem umhverfið hefur lítinn skilning á. Það er ekki fyrr en nú á allra síðustu árum með aukinni fræðslu að fólk, þess vegna foreldrar slíkra barna og unglinga, hefur áttað sig á í hverju kynáttunarvandi felst.

Kynvitundin byrjar að þroskast strax á unga aldri, sennilega um leið og börn fara að tengja sig við það umhverfi sem þau lifa í og skynja mjög snemma hvoru kyninu þau tilheyra. Almennt er samsvörun á milli líffræðilegs kyns og kynvitundar, þ.e. einstaklingurinn upplifir sig af því líffræðilega kyni sem hann telst tilheyra, en í einstökum tilvikum líður einstaklingum, börnum, fólki eins og það hafi fæðst í röngum líkama, það sé af röngu líffræðilegu kyni, þ.e. því finnst það vera af öðru kyni en líkami þess segir til um. Þetta fólk, yfirleitt mjög ungt, lendir í vandræðum. Umhverfið hefur ekki skilið þetta. Það hefur í aldanna rás leitt til útskúfunar, á okkar tímum til eineltis. Það hefur alltaf leitt til þöggunar og bælingar og við vitum hvað fylgir því, sérstaklega hjá fólki sem er á viðkvæmasta skeiði lífsins; reiði, kvíði, þunglyndi og oft tilraunir til sjálfsskaða, stundum því miður vel heppnaðar. Fólki finnst það ekki passa inn í félagslega staðla um kynhlutverkið og þegar skortur er á slíku innrími í lífinu hljótast oft af félagsleg vandamál.

Það er tvennt sem við sem löggjafi og framkvæmdarvald getum gert til þess að draga úr því og reyna að uppræta slíkan vanda, annars vegar með fræðslu, við þurfum meiri fræðslu um þetta, og hins vegar með því að tryggja að löggjöfin slái að minnsta kosti í gadda að réttarstaða þessa tiltekna hóps sé eins sterk og hægt er.

Eins og ég sagði áðan finnst mér það mjög gott hjá ríkisstjórninni að leggja þetta mál fram. Það var ekkert sjálfsagt en þetta er partur af því að gera það að grónu og viðteknu viðhorfi að skilja, skilgreina og virða rétt þessa hóps alveg eins og fyrir 20 árum í þessum sölum þegar eins konar réttarbylting hófst fyrir tilstilli ríkisstjórnar flokka okkar, þ.e. míns flokks og flokks hæstv. innanríkisráðherra, varðandi samkynhneigða og við sjáum í dag að það er orðið útbreitt viðhorf í samfélaginu sem allir virða. Það sama er nauðsynlegt að gerist með þennan hóp líka.