143. löggjafarþing — 12. fundur,  30. okt. 2013.

almenn hegningarlög.

109. mál
[16:35]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka móttökurnar og umræðurnar hér. Ég held að það skipti máli — þess vegna er málið flutt hér — og það hefur skipt máli fyrir Ísland hvernig stjórnvöld hafa tekið á ákveðnum málum er lúta að minnihlutahópum, er lúta að umburðarlyndi og ákveðnum skilningi í samfélaginu.

Það er auðvitað alveg rétt sem kom fram í máli hv. þingmanns sem talaði áðan að samfélagið kemur sannarlega sem betur fer oftast á undan löggjafanum, en í tilvikinu hér er varðar réttindi samkynhneigðra hefur það hins vegar skipt mjög miklu máli fyrir þann hóp, fyrir Íslendinga alla, og við tölum ítrekað fyrir því á alþjóðavettvangi. Staðan gagnvart samkynhneigðum hefur verið betri á Íslandi en mjög víða annars staðar meðal annars vegna þess hvernig afstöðu stjórnvöld hafa tekið. Ekki þarf annað en líta til þeirra landa þar sem staða þessara hópa er mjög slæm og líta á afstöðu stjórnvalda í þeim löndum. Ég vildi alla vega óska að á mörgum stöðum — við þurfum því miður ekki að sjá marga fréttatíma, það var síðast í gær verið að fjalla um stöðu samkynhneigðra í fjarlægu landi þar sem staðan er þannig að hún endurspeglar líka þá afstöðu sem stjórnvöld hafa til þessara minnihlutahópa. Þannig að jafn mikið og ég er sammála því að samfélagið er sem betur fer oftast á undan stjórnvöldum og almenningur sjálfur á Íslandi var reiðubúinn til að taka risastór skref í átt til réttindabaráttu og tryggja það að réttindi þessa hóps væru þau sömu og allra annarra, þá skiptir það máli hvernig ríkisvaldið á sínum tíma tók á málum er lúta að samkynhneigðum. Ég nefni líka mál er lúta að jafnri stöðu kvenna og karla. Það hefur skipt máli hvernig löggjafinn hér á landi hefur tekið á málinu til dæmis með því að tryggja að konur og karlar hafi sama rétt til töku fæðingarorlofs og svo gætum við lengi áfram haldið.

Auðvitað er farsælast þegar þessir hlutir fara saman. Málið er lagt fram vegna þess að Ísland vill standa jafnfætis og framar öðrum ríkjum og tryggja það að við séum umburðarlynd gagnvart einstaklingum sem ekki eru endilega eins og sú sem hér stendur til dæmis. Við viljum hafa ákveðið umburðarlyndi gagnvart kynhneigð og í þessu tilviki gagnvart því að setja inn þetta eina orð, kynvitund.

Ég ítreka það líka vegna umræðunnar hér að ekki er með neinum hætti í frumvarpinu verið að ráðast gegn tjáningarfrelsinu. Við getum tekist lengi á um hegningarlögin, stjórnarskrána og löggjöfina almennt er lýtur að upptalningu á ákveðnum þáttum eins og ég fór yfir áðan í fyrri ræðu minni. Þetta frumvarp bætir þar engu við. Það bætir inn einu orði, orðinu kynvitund, til að koma til móts við og skerpa á þeim skilningi sem við höfum haft til þess og til að fullgilda viðbótarbókun við samning Evrópuráðsins um tölvubrot. Þá upplýsi ég einnig, af því að nokkur umræða hefur skapast um það hvort sá samningur kalli yfir okkur eitthvað sem veldur því að brotið er gegn tjáningarfrelsi eða að menn megi ekki, eins og nefnt var hér áðan, hæðast að eða hvort komnar séu einhverjar skorður á grín eða gamanmál, að þetta felur það með engum hætti í sér. Meira að segja er það tryggt með því að Íslendingar hafa lýst því yfir líkt og aðrar norrænar þjóðir að þeir setja ákveðna fyrirvara inn í þetta ákvæði viðbótarbókunar Evrópuráðsins um tölvubrot sem felur það í sér að enginn afsláttur er gefinn á tjáningarfrelsi á Íslandi.

Tillögur okkar að fyrirvörum hafa verið tilkynntar. Þær eru í samræmi við það sem önnur Norðurlönd hafa gert svo tryggt sé að ekki sé brotið með nokkrum hætti gegn ákvæðum stjórnarskrár og laga um mannréttindasáttmála Evrópu um tjáningarfrelsi og stjórnarskrá okkar einnig.

Ég hvet því þingmenn Pírata og aðra þingmenn til að styðja þetta mál og get fullvissað þingmanninn um að hann þarf ekki að hafa nokkrar áhyggjur af því að með því sé farið gegn því mikilvæga tjáningarfrelsi sem við viljum standa vörð um. Það er einungis verið að bæta einu orði inn í þennan lagabálk. Svo getum við tekið langa umræðu um það, virðulegur forseti, hvort upptalning í lagasafni okkar sé orðin of sértæk. Hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir nefndi það aðeins áðan. Það má vel vera, en breytir engu um það að fyrst það er gert í íslenskum lögum er talið eðlilegt, réttlátt og sanngjarnt gagnvart þessum hópi að upptalningin feli einnig þetta eina orð í sér. Það er breytingin sem hér er lögð til.