143. löggjafarþing — 12. fundur,  30. okt. 2013.

almenn hegningarlög.

109. mál
[16:41]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég efast ekki um að tjáningarfrelsið er hv. þingmanni jafn kært og mér og ég held öllum þingmönnum.

En ég ítreka það sem ég sagði áðan. Með framlagningu þessa frumvarps er ekki með nokkrum hætti ráðist gegn tjáningarfrelsinu. Þingmaðurinn hefur ítrekað sagt að hann muni kynna sér málið á milli umræðna og ég hvet hann til að gera það, þá verður hann fullviss um það eins og ég að þetta frumvarp hefur ekki í för með sér neinar breytingar á því. Síðan getum við tekið almenna umræðu um tjáningarfrelsið almennt.

Frumvarpið felur einungis í sér að þessum hópi fólks sé tryggð sama réttarstaða og öðrum hópum sem taldir voru upp hér áðan og eru sérstaklega nefndir í ákvæðum laga, en það er ekki með neinu móti verið að ráðast gegn tjáningarfrelsinu. Ég tek undir það með hv. þingmanni. Okkur ber að verja það. Ég mundi ekki flytja frumvarp sem ég teldi að mundi skerða það á nokkurn hátt.