143. löggjafarþing — 12. fundur,  30. okt. 2013.

almenn hegningarlög.

109. mál
[16:42]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að spyrja einnar spurningar. Við gætum þrætt um hvort hér sé verið að skerða tjáningarfrelsi. Ég hef tekið eftir því að á okkar indæla landi er fólk hlynnt takmörkunum á tjáningarfrelsi. Venjulega lítur það ekki á það sem skorður á tjáningarfrelsi vegna þess að öll viljum við hafa tjáningarfrelsi nema þegar við viljum það ekki og það hefur komið í ljós að það er frekar oft sem við viljum það ekki. Við viljum það ekki ef við sjáum fram á að hugsanlega geti einhver manneskja orðið móðguð. Það má ekki móðga neinn á þessu blessaða landi samkvæmt landslögum.

Hér er vissulega verið að útvíkka takmörk á tjáningarfrelsi. Það getur ekki verið eitthvað sem við þurfum að rökræða. (Gripið fram í.) Það hlýtur að vera staðreynd. Við getum réttlætt það og sagt að kannski sé hægt að réttlæta takmarkað tjáningarfrelsi. Gott og vel. En takmarkanir á tjáningarfrelsi eru það samt.

Spurningin sem mig langar að bera undir hæstv. innanríkisráðherra er: Hvernig lög, að mati hæstv. ráðherra, væri ekki hægt að banna, samkvæmt stjórnarskrá? Að gera grín að einhverju?