143. löggjafarþing — 12. fundur,  30. okt. 2013.

almenn hegningarlög.

109. mál
[16:44]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að ég sé búin að fara yfir þetta og svara eins skýrt og mögulegt er. Eins og ég sagði áðan deili ég því algjörlega með hv. þingmanni að við eigum að varast allt það sem kann að kalla á einhverjar hömlur á tjáningarfrelsi. Þessir aðilar eiga að njóta sömu verndar og aðrir þeir sem eru taldir upp í þessu ákvæði laga. Það erum við að gera hér. Allar spekúlasjónir um að þetta feli í sér að ekki megi gera grín o.s.frv. — um það fjallar löggjöfin ekki. Ég vil ítreka það við þingmanninn og ég hvet hann til að skoða þá fyrirvara sem Ísland hefur gagnvart þessari viðbótarsamþykkt. Þar setjum við fram hluti sem við teljum að tryggi að þessi litla viðbót inn í lagasafnið hafi ekki þau áhrif sem mér heyrist að þingmaðurinn hafi áhyggjur af og það mun ekki gerast. Fyrst og síðast snýst þetta um það.

Ég hvet okkur líka til þess að nálgast umræðuna um frumvarpið eins og það er fram lagt. Það felur í sér aukna réttarbót og réttaröryggi fyrir ákveðinn minnihlutahóp sem við viljum og teljum að eigi að njóta sömu verndar og aðrir hópar. Út á það gengur frumvarpið.

Allt sem þingmaðurinn hefur sagt um hömlur á tjáningarfrelsið er girt fyrir með ákveðnum hætti. Ég skal bara á eftir sýna hv. þingmanni þau gögn sem ég hef um það, þá getur hann farið yfir þau í rólegheitum og sannfærst um, held ég, að þetta sé hið besta mál.