143. löggjafarþing — 12. fundur,  30. okt. 2013.

almenn hegningarlög.

109. mál
[16:46]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla að byrja á því að viðurkenna að ég er eiginlega að misnota formið því ég er ekki með beina spurningu til hæstv. innanríkisráðherra Hönnu Birnu Kristjánsdóttur heldur vil ég þakka henni fyrir að leggja málið hér fram, enda er mjög mikilvægt að löggjafinn verndi mannhelgi fólks óháð kynvitund þess.

Ég tek heils hugar undir orð ráðherra um að löggjafinn hefur mikilvægu hlutverki að gegna við að stuðla að hugarfarsbreytingu í samfélaginu. Þess vegna fagna ég því að frumvarpið hafi verið lagt fram, þakka hæstv. ráðherra og vona að það verði samþykkt á Alþingi sem allra fyrst.