143. löggjafarþing — 12. fundur,  30. okt. 2013.

myglusveppur og tjón af völdum hans.

96. mál
[17:06]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Það er einmitt þetta sem er svo mikið ójafnræði í samfélaginu okkar og það er makalaust. Ég hef heyrt af því að í sumum löndum sem við berum okkur saman við er brugðist strax við því þegar kemur upp að aðstæður í húsnæði geti augljóslega valdið heilsutjóni. Fólk þarf ekki að bíða jafnvel árum saman eftir því að geta fengið bót á sínum málum. Svo hefur maður heyrt sögur af því að fólk hefur hreinlega þurft að fara úr einu mygluhúsinu í annað. Mér finnst svo skelfilegt að lesa til sögurnar til dæmis um börnin og maður veit ekki hvort heilsutjónið er varanlegt og krónískt, það er búið að veikja ónæmiskerfið svo mikið.

Ég mun svo sannarlega gera þetta eitt af mínum forgangsmálum á þessu missiri í umhverfis- og samgöngunefnd. Ég hef sjálf fengið að vera mannlegt tilraunadýr fyrir svona sveppi og er sannfærð um að það er ástæða þess að ég hafnaði inni á spítala fyrir ári síðan. Ég veit hversu erfitt það er fyrir fólk að búa við slíkar aðstæður. Manni líður nánast eins og maður sé aleinn í heiminum.

Það er sem betur fer þannig að maður er í stöðu til þess á þessum vinnustað að hjálpa öðrum við að lenda ekki í því sama. Það sem ég er sérstaklega hrifin af í ályktuninni er hversu ítarlega hefur verið farið í hvað er að og hvernig má bregðast við því. Það er búið að leggja gríðarlega góðan grunn fyrir nefndina sem á að skila af sér einhverjum almennilegum úrbótum þegar þetta verður fullnustað.