143. löggjafarþing — 12. fundur,  30. okt. 2013.

myglusveppur og tjón af völdum hans.

96. mál
[17:08]
Horfa

Flm. (Kristján L. Möller) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég gríp á lofti það sem hv. þingmaður ræddi um, þ.e. ójafnræði. Það er nefnilega alveg rétt. Ég las upp hér hvernig einstaklingur bar allt sitt tjón vegna þess að þetta gerðist og það þurfti að rífa húsið en það brann ekki til grunna. Þar er mikill munur á. Allir eru skyldugir að brunatryggja hús sín, sem betur fer, þannig að ekkert hús er án brunatrygginga. Ef bruni verður er tjónið yfirleitt bætt. Auðvitað geta alltaf verið skiptar skoðanir um hvað á að bæta mikið, það er eins og gengur og gerist. En við getum tekið fleiri dæmi, vegna þess að við höfum búið til kerfi vegna annarra tjóna sem eru, má segja, náttúrutjón líka, þ.e. snjóflóð og jarðskjálftar. Fari hús í snjóflóði kemur Viðlagasjóður til skjalanna og bætir tjónið og það sama á við tjón vegna jarðskjálfta. Þannig höfum við Íslendingar búið til kerfi þar sem við tökum öll þátt í tjóni sem einhverjir meðbræður okkar og samborgarar lenda í sem við vonum svo að komi aldrei fyrir aftur.

Þetta á ekki við þarna vegna þess að heilsufarslegt tjón er eitt, eins og hv. þingmaður nefndi, en hitt er líka mjög alvarlegt, þ.e. fjárhagslegt tjón viðkomandi einstaklinga. Að því kem ég betur í síðari ræðum mínum.