143. löggjafarþing — 12. fundur,  30. okt. 2013.

myglusveppur og tjón af völdum hans.

96. mál
[17:39]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég ætla rétt aðeins að blanda mér í þessa umræðu. Þetta er afar brýnt mál sem flutt var hér fyrst á 141. þingi og en þá var Jónína Rós Guðmundsdóttir, fyrrverandi þingmaður 1. flutningsmaður.

Myglusveppurinn er mikill skaðvaldur eins og við vitum. Hann hefur haft gífurleg áhrif á fjölda fólks og á suma til frambúðar. Það má velta því fyrir sér af hverju þessi mál hafa fengið svona litla umfjöllun ef miðað er við margt annað og hefur ekkert alltaf þótt fréttnæmt þó að fólk missi allt sitt vegna myglusvepps. En umræðan hefur aukist núna undanfarið í þjóðfélaginu og ekki að ósekju. Fólk kaupir sér nefnilega hús í góðri trú, það leggur allt undir. Það telur sig vera að fjárfesta til framtíðar og telur sig vera með alla pappíra í lagi; eignin er á ábyrgð byggingarmeistara sem á að taka húsnæðið út, byggingarfulltrúi sveitarfélaganna skrifar upp á það, enda á kaupandinn ekki endilega að kunna allar þær reglur sem þar eru um hvort hús sé byggt samkvæmt lögbundnum hætti.

Ljóst er miðað við þau tilvik sem upp hafa komið að það er einhvers staðar mikil brotalöm í kerfinu. Eins og rakið er í þingsályktunartillögunni eru það ekki síður nýbyggingar sem eru illa farnar vegna myglusvepps.

Mig langar að vitna til viðtals við hjón á Egilsstöðum, Önnu Sigríði Árnadóttur og Jón Þór Björgvinsson, sem birtist á RÚV ekki fyrir svo löngu. Þar segir, með leyfi forseta:

„„Í öllum húsum kemst alltaf einhver raki í þakið en þá á að lofta um og þurrka en það gerist ekki hér því ullin lokaði á loftunina.“ Hann [Jón Þór] spyr hvernig geti staðið á því að byggð séu hús þar sem rakvarnarlag sé í ólagi bæði í þaki og milliveggjum sem sums staðar séu líka útveggir. Því gæti mygla líka leynst inni í veggjum. ,,Og af hverju er lokað inn á öndun inn á þak? Það er náttúrlega bara svakalegt, það er eitthvað sem á ekki að gerast. Í æsingnum fyrir hrun var byggt svo ofsalega mikið. Það er að koma meira og meira í ljós og fleira fólk er að lenda í svona tjóni.““

Eins og komið var inn á áðan er þetta auðvitað þekkt vandamál frá gamalli tíð en með auknu eftirliti og öðru slíku finnst manni sérstakt að þetta gerist í tiltölulega nýjum húsum. Þessi hjón sem og margir aðrir hafa orðið fyrir miklu tjóni sem ekki fæst bætt og búslóðin er jafnvel ónýt, eins og hjá svo mörgum öðrum, þannig að þau geta ekki notað búslóðina m.a. vegna þess að gróin þrífast þar.

Í VIII. kafla laga um hollustuhætti segir, með leyfi forseta:

„Byggingar og mannvirki skulu hönnuð og byggð þannig að heilsu manna sé ekki stefnt í hættu, m.a. vegna hita og raka, hávaða, fráveitu skólps, reyks, fasts eða fljótandi úrgangs, mengunar í lofti, jarðvegi, vatni, gasleka eða geislunar.“

Þar segir líka:

„Tryggja skal að raki eða afleiðingar hans rýri ekki eðlileg heilbrigðis- og hollustuskilyrði innan dyra.“

Því er það ekki nema von að fólk spyrji sig sem lendir í slíkum hamförum — því að það eru ekkert annað en hamfarir þegar fólk missir allt — hverjir það eru sem eigi að koma til hjálpar, hverjir tryggi slíkt, því að fólk verður að geta treyst því að allir eftirlitsaðilar sinni þeirri skyldu sinni að sjá til þess að þessir hlutir séu í lagi. Það er því augljóst að breyta þarf öllu ferlinu eins og vikið er að í þingsályktunartillögunni því að dæmin sem upp hafa komið eru of mörg.

Ég ætla að vitna í opið bréf frá 2008 sem einn tjónþolinn skrifaði til þáverandi heilbrigðis- og umhverfisráðherra, með leyfi forseta:

„Þessi skaðlegi gestur er myglusveppur og hann knúði dyra hjá mér og nú er búið að jafna heimili mitt við jörðu. Róttækar ráðstafanir finnst ykkur kannski en undir húsinu var skriðkjallari og þar átti sveppurinn upptök sín. Við eftirgrennslan kom í ljós að kjallarinn sá var ekki gerður eins og teikningar sögðu til um þegar húsið var byggt.“

Síðar segir:

„Nú var um tvennt að velja, reyna að komast í veg fyrir myglusveppinn með öllum tiltækum ráðum, rífa allt innan úr húsinu, gólfið úr og reyna á einhvern hátt að steypa plötu, en hvernig átti ég að réttlæta fyrir mér að leggja út í milljóna kostnað sem svo yrði ekki til neins þar sem sveppurinn var alveg eins í útveggjum hússins. Þá var bara hinn kosturinn eftir að hreinlega rífa húsið af grunninum, steypa plötuna og setja nýtt hús þar ofan á.

Þá var að fara í tryggingafélagið, við vorum með allar tryggingar og töldum að við fengjum skaðann alla vega bættan að hluta, þó ekki væri nema húsgögnin, en reyndin varð allt önnur. Svona er ekki til í skilmálum tryggingafélaganna og við fáum ekki krónu. Hvernig á að vera mögulegt að byrja upp á nýtt með lánið af ónýta húsinu á bakinu?“

Því miður er það ekki á bætandi ofan á þau ósköp að tapa húsnæðinu sínu með auknum fjárhagsáhyggjum, heilsan jafnvel orðin léleg, að standa líka frammi fyrir því að tryggingarnar bæti ekki tjónið. Það er ömurleg staðreynd að þeir sem uppgötva myglusvepp í húsakynnum sínum eiga sér enga von um að fá tjón sitt bætt.

Vonandi er þetta skref í áttina og ég tek undir með flutningsmanni og öðrum þeim sem hér hafa talað þegar þeir vitna til þess að ef hús brennur eða eyðileggst vegna snjóflóðs eða annarra hamfara er það bætt, vegna þess að samfélagið hefur ákveðið að það sé bótaskylt, við höfum komið okkur saman um það. En þetta mál er brýnt, hvort sem það verður undir viðlagatryggingu eða öðrum hamfaratryggingum eða slíku, mér finnst það ekki vera aðalmálið. Aðalmálið er auðvitað að fá niðurstöðu í það með stofnun þessa starfshóps og ég vona svo sannarlega og ég trúi því að það náist þverpólitísk sátt um málið, að hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra afgreiði það fljótt, að nefndin skili því fljótt frá sér og að skipað verði í þennan starfshóp þannig að niðurstöður liggi fyrir 1. júlí 2014. Ég vona að þær fjölskyldur sem orðið hafa fyrir slíkum hamförum og munu verða fyrir slíku, því að þetta er auðvitað ekki búið þó að einhverjar reglur verði settar, fái viðunandi úrræði.