143. löggjafarþing — 12. fundur,  30. okt. 2013.

aðskilnaður viðskiptabanka og fjárfestingarbanka.

18. mál
[18:07]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Ég tók þátt í félagsskap sem er kallaður IFRI, Icelandic Financial Reform Initiative. Fyrir tveimur árum síðan kom hópurinn saman, hópur úr grasrótinni, og fór að skoða hvernig hægt væri að gera endurbætur á fjármálakerfinu. Vinnunni miðaði gríðarlega vel, ofboðslegur áhugi og sett voru fram þau grunngildi sem fólki fannst að fjármálakerfið yrði að byggja á. Fyrsta grunngildið var sjálfbærni, kerfið þyrfti að vera sjálfbært.

Í Icesave-deilunni sáum við að þjóðin vill ekki að ríkið, skattgreiðendur, beri ábyrgð á fjárhagslegri áhættu einkaaðila. Þessi þingsályktunartillaga leiðir til þess að dregið verði úr þeirri áhættu sem skattgreiðendur þurfa að bera þegar kemur að einkarekstri fjármálastofnana.

Þessi félagsskapur, grasrótarhópurinn sem kom saman, skoðaði hvaða úrbætur mætti gera á fjármálakerfinu og tók saman tíu atriði sem honum fannst vera mikilvægust. Við enduðum með aðskilnað fjárfestingar- og viðskiptabanka sem það atriði sem við vildum setja í forgang. Það væri það atriði sem hvað einfaldast væri að koma í framkvæmd af þeim úrbótum sem við komum okkur saman um. Ég styð því heils hugar þessa þingsályktunartillögu og mun greiða atkvæði með henni.

Tíu tillögur IFRI má finna á IFRI.is og mig langar til að lesa þessa fyrstu tillögu um aðskilnað fjárfestingar- og viðskiptabanka, með leyfi forseta:

„Aðskilnaður er lykilatriði, þar sem áhætta er annars vegar og öryggi hins vegar. Hér er verið að vísa til svokallaðra Glass-Steagall laga, sem samþykkt voru í Bandaríkjunum árið 1933, í kjölfar hrunsins árið 1929. Í raun er tilgangurinn sá að aðskilja áhættuna af þessum rekstrarformum, fjárfestingarbanka annars vegar og viðskiptabanka hins vegar.

Umbætur á þessu sviði eru að okkar mati nauðsynlegar á Íslandi, ekki bara með vísan til þessara bandarísku laga, heldur er það grundvallaratriði að skilgreina og aðgreina bankastarfsemi af þessu tagi. Umbætur í þessa veru verða að eiga sér stað með aðkomu almennings og verða að vera fyrir opnum tjöldum. Markmiðið ætti að vera að takmarka ábyrgð skattgreiðenda á bankakerfinu. Starfsemi fjárfestingarbanka og viðskiptabanka þarf að skilgreina með tilliti til fjárfestingarstefnu, söfnun innlána og stærð bankanna, svo eitthvað sé nefnt. Jafnvel mætti lagskipta fjármálakerfinu eftir áhættu, þar sem greiðslumiðlun er neðsta lagið, viðskiptabanki næsta lag og fjárfestingarbanki rekur lestina.

Þess má að lokum geta að Glass-Steagall lögin svokölluðu voru afnumin í Bandaríkjunum þann 12. nóvember árið 1999. Sumir telja að afnám þessara laga hafi átt stóran þátt í því hruni sem varð haustið 2008.“

Ég þakka kærlega fyrir þessa þingsályktunartillögu og mun greiða atkvæði með henni.