143. löggjafarþing — 12. fundur,  30. okt. 2013.

aðskilnaður viðskiptabanka og fjárfestingarbanka.

18. mál
[18:17]
Horfa

Vilhjálmur Bjarnason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég sagði, eins og þingmaðurinn tók fram í lokin, að ég teldi ekkert athugavert við að skoða þetta. Ég vil líka minna á það að á undanförnum árum hefur farið fram mjög víðtæk endurskoðun á löggjöf um fjármálastarfsemi. Löggjöfin um fjármálafyrirtæki hefur verið endurskoðuð ef ég man rétt tvisvar, þrisvar sinnum með viðbótum þar sem hefur verið hert á þessum ákvæðum um fjárfestingarþáttinn, þ.e. að heimilt er að stunda fjármálastarfsemi sem er talin upp í þessum stafliðum og hert á því að ekki er heimilt að stunda aðra starfsemi. Landsbankanum er til dæmis ekki heimilt að reka skipafélag. Það er algjörlega óskyld starfsemi. Íslandsbanka er ekki heimilt að reka flugfélag o.s.frv.

Það sem ég ætlaði mér í rauninni að gera með minni ræðu var að vekja athygli á því að fjárfestingarstarfsemi banka og fjárfestingarbankastarfsemi er ekki sami hluturinn. Ég tel rétt rétt eins og aðrar þjóðir sem stunda fjármálastarfsemi, eins og Bretar og Bandaríkjamenn og Evrópusambandið, að þessi könnun fari fram á Íslandi. Það voru eiginlega mín lokaorð og ég vona að þau hafi komist til skila.

Ég hef lokið máli mínu, virðulegi forseti.