143. löggjafarþing — 12. fundur,  30. okt. 2013.

forvarnastarf vegna krabbameins í blöðruhálskirtli.

28. mál
[18:34]
Horfa

Flm. (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um forvarnastarf vegna krabbameins í blöðruhálskirtli.

Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að undirbúa og hrinda í framkvæmd víðtæku forvarnastarfi vegna krabbameins í blöðruhálskirtli. Markmið verkefnisins verði að miðla upplýsingum um sjúkdóminn, einkenni hans, áhættuþætti, mögulegt eftirlit með áhættuþáttum og bætt meðferðarúrræði.

Við skipulag verkefnisins verði komið á víðtækri samvinnu allra aðila innan og utan heilbrigðisþjónustunnar sem vinna að málefnum krabbameinssjúkra, svo sem heilbrigðisþjónustu, við rannsóknir, í forvarnastarfi, fræðslu og stuðningsþjónustu.

Virðulegi forseti. Þessi tillaga var áður flutt á 141. löggjafarþingi en það náðist ekki að ljúka málinu á því þingi.

Krabbamein í blöðruhálskirtli er algengasta krabbamein í körlum og algengasta krabbamein á Íslandi. Það greinast rúmlega 200 ný tilfelli á ári, sennilega eru þau nær 220. Áætlað er að af völdum meinsins látist árlega um 50 karlmenn á aldrinum 45–80 ára. Aukin almenn vitund um sjúkdóminn er líkleg til að auka greiningarmöguleika á fyrstu stigum hans og þar með líkur á greiningu. Eins og gildir um mörg önnur krabbamein í mannslíkamanum er tiltölulega auðvelt að fjarlægja meinið ef það greinist nógu snemma og áður en það hefur dreift sér út fyrir kirtilinn og valdið frekari meinvörpum.

Krabbamein í blöðruhálskirtli er einstakt að því leyti að það er byggt upp úr blöðruhálskirtilsfrumum sem eru sértækar og finnast hvergi annars staðar í líkama mannsins. Blöðruhálskirtillinn er þreifanlegur með fingri upp í endaþarm og með ómskoðun um endaþarm er auðvelt að skoða líffærið og taka sýni úr því til skoðunar og greiningar á meininu. Blöðruhálskirtilsfrumur gefa frá sér svokallaðan mótefnavaka sem er mælanlegur í blóði karlmanna sem PSA og stendur fyrir Prostate Specific Antigen, sem þýða mætti sem sértækur blöðruhálskirtilsmótefnavaki. PSA er mælanlegt í blóði karlmanna, misjafnlega hátt eftir einstaklingum. Ef PSA hækkar skyndilega á tilteknu tímabili, t.d. sex til tólf mánuðum, er það merki um aukna virkni í kirtlinum sem getur verið ábending um krabbameinsæxlisvöxt sem er genginn út frá honum þar sem engin önnur fruma í mannslíkamanum framleiðir PSA. Með nútímatækni er mæling á PSA tiltölulega einföld og þar af leiðandi ódýr. Hægt er að mæla hundruð blóðsýna daglega með sama tækinu. Það er áætlað að hver mæling kosti ekki nema um 2.000 kr.

Með því að mæla PSA endurtekið hjá sama karlmanninum og finna hækkuð gildi sjást hættumerki um krabbameinsvöxt. Viðkomandi ber þá að leita aðstoðar þvagfæraskurðlæknis sem mun þreifa á blöðruhálskirtil viðkomandi. Ef hann fyndi hnúta yrði tekið sýni úr þeim og sent á vefjarannsóknarstofu. Ef skoðun á sýninu sýndi að um krabbamein væri að ræða lægi sjúkdómsgreiningin fyrir og meðferð yrði síðan ákveðin í samráði þvagfæraskurðlæknis og sjúklings.

Einkenni krabbameins í blöðruhálskirtli eru mjög lítil og engin á byrjunarstigi. Það er því hægt að mæla marktæka hækkun á PSA áður en æxlisvöxturinn verður þreifanlegur og áður en meinið sáir sér um líkamann. Mælingu á PSA er þannig hægt að nýta til frumgreiningar á meininu sem ætti að auka líkur á snemmbærri meðferð og lækningu.

Þá eru einnig vísbendingar um að erfðaþættir hafi áhrif á líkur á því að meinið greinist í karlmönnum. Það er í raun mjög mikilvægur þáttur í þessu máli þar sem fjölskyldusaga er til um krabbamein í blöðruhálskirtli er mjög mikilvægt að karlkyns afkomendur fái enn betri eftirfylgni og skoðanir en aðrir. Það tvöfaldast til þrefaldast líkurnar á því að einstaklingur fái krabbamein í blöðruhálskirtil ef t.d. faðir eða bróðir hefur greinst með meinið áður.

Ef karlmaður greinist með staðbundið krabbamein í blöðruhálskirtli kemur í megindráttum þrennt til greina: Vöktuð bið þar sem fylgst er með því hver þróunin er á sjúkdómnum, geislameðferð eða brottnám á kirtlinum. Geislameðferð er í flestum tilvikum veitt með svokölluðum línuhraðli. Það er ánægjulegt að við skulum vera að ná þeim áfanga núna að verið er að taka þessa dagana í gagnið nýjan línuhraðal á Landspítalanum. Það var brýn þörf, ekki bara gegn krabbameini í blöðruhálskirtli heldur einnig öðrum tegundum krabbameins, að endurnýja þetta tæki. Til að geta veitt bestu meðferð var þessi endurnýjun nauðsynleg.

Skurðmeðferð hefur fleygt fram og nú er við slíkar aðgerðir á Vesturlöndum notaður svokallaður aðgerðarþjarki (róbot) sem er stýrt af skurðlækninum. Þannig situr skurðlæknirinn ekki við hlið sjúklingsins lengur heldur á öðrum stað og stýrir aðgerðinni í gegnum þetta vélmenni. Vélmennið gerir skurðlækninum kleift að nema líffærið á brott án þess að valda skemmdum á mikilvægum nærliggjandi líffærum. Þetta leiðir jafnframt til styttri legutíma og bataferlið er styttra sé notast við nýjustu tæki sem völ er á.

Þjálfun okkar lækna sem nú eru í námi á þessum vettvangi miðast við slíka tækni. Því er mikilvægt að búa íslenskum sérfræðingum þau áhöld í hendur sem þeir eru vanir og gera vænlegra fyrir þá að starfa á Íslandi við bestu mögulegu aðstæður og með sem mesta þekkingu að vopni, notendum þjónustunnar til góða. Því er gríðarlega mikilvægt og nauðsynlegt að slíkt tæki verði til staðar hér á landi. Þetta er í skoðun, virðulegi forseti. Svona tæki kostar um 300 milljónir. Það nýtist við fleira en bara aðgerðir vegna krabbameins í blöðruhálskirtli, þ.e. við brottnám blöðruhálskirtils. Það nýtist einnig við aðrar kviðarholsaðgerðir.

Það er mjög nauðsynlegt að innleiða þessa nýju tækni og fá þetta nýja tæki vegna þess, eins og ég kom inn á hér áðan, að þeir sem nema sérfræði í þvagfæraskurðlækningum erlendis fá þjálfun á tæki sem þetta. Þessu fólki er eiginlega fyrirmunað að koma til starfa á Íslandi nema við búum því sömu tækni og aðstæður og það hefur hlotið menntun og þjálfun í.

Hingað til hefur ekki verið talið tímabært að framkvæma hópleitir vegna krabbameins í blöðruhálskirtli. Það er þó mikilvægt að farið sé reglulega yfir þær forsendur af þar til bærum aðilum enda mikil reynsla hérlendis af skimun vegna legháls- og brjóstakrabbameins hjá konum sem skilað hefur mjög góðum árangri. Mikilvægt er því að taka með öllum skynsamlegum ráðum á þessum vágesti íslenskra karlmanna.

Það er von flutningsmanna að þessi þingsályktunartillaga hleypi af stað vitundarvakningu í samfélaginu um það mikla mein sem krabbamein í blöðruhálskirtli er. Grundvöllur forvarnastarfs er umræða og þekking um þann vágest sem við er að glíma. Allir karlmenn þurfa að vera meðvitaðir um meinið og hvernig það lýsir sér og vita hvert þeir eiga að leita til að fá skimun eða meðferð.

Það er öllum áfall, virðulegi forseti, að greinast með krabbamein. Það er ekki bara einstaklingurinn sem á þar í hlut, það er áfall fyrir fjölskylduna.

Við höfum lagt mikla áherslu í forvörnum á algeng mein, t.d. brjóstakrabbamein og leghálskrabbamein, með reglubundnum skoðunum, sýnatökum, upplýsingastreymi, eftirfylgni, lýtaaðgerðum eftir aðgerðir o.s.frv. Hér hefur tekist mjög vel til. Árangur af þessu forvarnastarfi og þeirri miklu áherslu sem hefur verið á þennan mikla vágest hjá konum, sem brjóstakrabbamein og leghálskrabbamein er, er ánægjulegur.

Krabbamein í blöðruhálskirtli er ekki síður alvarlegt mál. Það eru ekki færri sem greinast með krabbamein í blöðruhálskirtli en þau krabbamein sem algengust eru hjá konum. Það hefur verið feimnismál að ræða þetta krabbamein, þennan vágest. Það má segja að þolendur hafi borið sorg sína í hljóði. Aukaverkanir sem fylgja aðgerðum vegna krabbameins í blöðruhálskirtli eru þekktar, hvort sem er eftir geislameðferð eða brottnámi kirtilsins, en margt hefur gerst í þeim efnum og þróast til betri vegar á síðari árum. Það er auðvitað ánægjulegt. Ný lyf gera mikið fyrir karlmenn varðandi stinningarvandamál og önnur vandamál sem geta fylgt slíkum aðgerðum. Það er þó einn ljóður á, Sjúkratryggingar Íslands taka ekki þátt í þessum lyfjakostnaði. Krabbameinslæknir sem hefur meðhöndlað fjölda sjúklinga sagði mér að margir væru þannig staddir að þeir hefðu ekki efni á því að kaupa þessi lyf sem þó geta breytt lífsgæðum þeirra mjög mikið. Þetta getur haft sálræn áhrif á karlmenn og auðvitað fjölskyldur þeirra. Þetta getur meðal annars leitt til þunglyndis. Þá er allt í lagi að borga brúsann fyrir einstaklinginn til þess að hann geti leita sér læknishjálpar ef hann þarf lyf við þeim sjúkdómi, en Sjúkratryggingar taka ekki þátt í kaupum á þeim lyfjum sem eru til staðar í dag fyrir menn sem hafa farið í aðgerð vegna krabbameins í blöðruhálskirtli, sem geta fyrirbyggt frekari vanda og aukið lífsgæði þessara einstaklinga og hjóna.

Það er nauðsynlegt að hefja átak í þessu, virðulegi forseti. Það er mikilvægt fyrir samfélagið að við aukum umræðuna um eitt algengasta krabbamein á landinu. Það liggur nú fyrir mikil þekking og reynsla. Það er þjóðhagslega mikilvægt að tekið sé af festu á þessum málum í þágu allra þeirra einstaklinga sem eiga hlut að máli og fjölskyldna þeirra.