143. löggjafarþing — 12. fundur,  30. okt. 2013.

forvarnastarf vegna krabbameins í blöðruhálskirtli.

28. mál
[18:47]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég er flutningsmaður á þessari þingsályktunartillögu ásamt fleirum. Ég vil þakka hv. þm. Jóni Gunnarssyni fyrir þá framsöguræðu sem hann flytur um þetta mál. Ég held að ástæða sé til að leggja áherslu á að það eitt að opna umræðu og efla forvarnastarf um blöðruhálskirtilskrabbamein, sem oftar en ekki hefur verið kannski feimnismál í okkar samfélagi, er af hinu góða. Það virðist vera þannig að tengist sjúkdómur þessum líffærum okkar ræðir fólk hann síður en sjúkdóma sem tengjast okkur og öðrum líffærum.

Þess vegna er þingsályktunartillagan ekki bara þörf vegna þess sem lagt er til í henni. Hún er líka þörf til að loka á fordóma og opna hugi fólks fyrir því hvað það er mikilvægt að við ræðum forvarnir í einu og öllu og á öllum sviðum. Það skiptir máli. Það er líka mikilvægt eins og kemur fram í greinargerðinni um meðferðarúrræði að skoðuð séu meðferðarúrræði eins og þau gerast best.

Það vill þannig til, virðulegur forseti, að ég átti tal við mann sem hafði greinst með mein í blöðruhálskirtli. Honum stóð til boða geislar eða brottnám, honum hugnaðist hvorugt, en hafði einhvers staðar heyrt að því er hann taldi um innri geislun hjá læknum í Svíþjóð. Hann hafði samband þangað og fann þann lækni, sem reyndist vera íslensk kona á sjúkrahúsi í Suður-Svíþjóð, sem hafði beitt innri geislun sem er með öðrum hætti en þau úrræði sem hér eru tilgreind. Mig langaði bara, virðulegur forseti, þar sem ég á ekki sæti í hv. velferðarnefnd hvert þetta mál mun fara, að koma þessu áleiðis hér þannig að það væru til upplýsingar um fleiri hugsanleg meðferðarúrræði.

Fyrst og síðast, virðulegur forseti, er það fagnaðarefni að fá þessa þingsályktunartillögu fram í því skyni að efla forvarnir, draga úr fordómum og skila okkur áfram í árangri.