143. löggjafarþing — 12. fundur,  30. okt. 2013.

skrásetning kjörsóknar eftir fæðingarári í kosningum á Íslandi frá vori 2014.

62. mál
[18:51]
Horfa

Flm. (Sigríður Ingibjörg Ingadóttir) (Sf):

Herra forseti. Ég mæli fyrir þingsályktunartillögu um skrásetningu kjörsóknar eftir fæðingarári í kosningum á Íslandi frá vori 2014. Flutningsmenn með mér á þessari tillögu eru hv. þingmenn Árni Þór Sigurðsson, Birgitta Jónsdóttir, Björt Ólafsdóttir, Guðbjartur Hannesson, Helgi Hrafn Gunnarsson, Margrét Gauja Magnúsdóttir, Óttarr Proppé og Vilhjálmur Árnason.

Tillaga þessi felur það einfaldlega í sér að forsætisráðherra hlutist til um að Hagstofa Íslands kalli eftir upplýsingum frá kjörstjórnum um kjörsókn eftir fæðingarári við kosningar og þjóðaratkvæðagreiðslur frá og með árinu 2014 auk annarrar hefðbundinnar tölfræði. Það eru fordæmi fyrir slíku enda safnar Hagstofa Íslands upplýsingum um kjörsókn eftir sveitarfélögum og kyni. Það er mikilvægt að fá slíkar upplýsingar um aldur og þess vegna erum við þingmennirnir að óska eftir þeim.

Niðurstöður úr Íslensku kosningarannsókninni frá alþingiskosningum 1983–2009 benda nefnilega til þess eða gefa sterkar vísbendingar um að kosningaþátttaka ungs fólks á Íslandi sé mun minni en annarra aldurshópa og fari auk þess minnkandi í þeim aldurshópi umfram aðra. Nú er það auðvitað þannig að kosningarannsóknin skoðar þau mál en telur mjög eðlilegt að kalla eftir þessum upplýsingum þannig að það séu rauntölur en ekki kannanir. Þótt þingsályktunin lúti að ungu fólki sérstaklega á þetta þó ekki síður við um elstu aldurshópana því það er líka mikilvægt að þeim sem fer hlutfallslega fjölgandi á níræðis- og tíræðisaldri, þeir eru kjósendur og kannski sá hópur eða einn af þeim hópum sem reiðir sig hvað mest á þjónustu hins opinbera. Það er því mikilvægt að það sé fólk sem fylgist með kosningaþátttöku þessara hópa ekki síður en ungs fólks, enda viljum við að allir kosningabærir einstaklingar á Íslandi séu virkir þátttakendur í lýðræðinu.

Ýmsar rannsóknir sýna að ánægja með lýðræðið almennt sem og traust í garð stjórnvalda hefur sterka fylgni við kosningaþátttöku einstaklinga. Þeir þættir fylgjast auk þess að við félagsauð, traust milli borgaranna og samfélagsþátttöku í víðara samhengi, svo sem félagsstarf og hagsmunabaráttu. Allt er þetta nauðsynlegur hluti af lýðræðinu sjálfu og hefur auk þess ýmsa mikilvæga kosti í för með sér fyrir samfélagslega velferð almennt.

Kosningaþátttaka mismunandi þjóðfélagshópa getur því verið sterk vísbending um getu stjórnmálamanna til að virkja þá til samfélagslegrar þátttöku og vinna síðan traust þeirra og rækta tengsl við þá. Virkt lýðræði veltur á þátttöku borganna, jafnræði þeirra, og virkum tengslum við stjórnvöld. Það hefur því alvarlegar afleiðingar ef tilteknir þjóðfélagshópar missa tengslin við stjórnmál og samfélag, sérstaklega þegar sá þjóðfélagshópur er kynslóðin sem síðar tekur við stjórn landsins.

Þessi þingsályktunartillaga kemur fyrst og fremst til vegna skýrslu sem LÆF, Landssamband æskulýðsfélaga, skrifaði um kjörsókn ungs fólks og áhyggjur samtakanna af lýðræðisþróun fyrir ungt fólk, að það beiti sér ekki og ekki sé verið að virkja það þar sem völdin liggja. Í þeirri skýrslu sem og greinargerð með þingsályktunartillögunni er vitnað í hvítbók Evrópusambandsins um málefni evrópskra ungmenna frá árinu 2001. Þar segir:

Ungt fólk í Evrópu hefur yfirleitt mjög mikinn áhuga á að hlúa að lýðræðinu og þá sérstaklega að nýta lýðræðisleg réttindi sín. Þó hefur borið á vantrausti þeirra í garð opinberra stofnana. Ungt fólk hefur ekki eins mikinn áhuga á hinum hefðbundnu stjórnmálalegu öflum, t.d. stjórnmálaflokkum og verkalýðsfélögum, og áður var. Skoðanir þeirra eru því ekki áberandi í umræðum og ákvarðanatöku. Félagasamtök ungs fólks finna fyrir þessu áhrifaleysi og gera sér grein fyrir þörfinni á breytingum.

Ekki má þó skilja þetta svo að ungt fólk hafi ekki áhuga á þjóðlífinu. Flest ungmenni vilja vera með í og hafa áhrif á mikilvægar ákvarðanatökur en þau vilja gera það annars staðar en í stjórnmálahreyfingum og/eða stofnunum. Það er hlutverk valdhafanna að brúa það bil sem myndast hefur á milli áhugasamra ungmenna og stjórnkerfisins. Verði það ekki gert getur það haft slævandi áhrif á þegnskap almennings og jafnvel leitt til mótmæla.

Ég vil fullyrða það sem starfandi stjórnmálamaður að þegar upp koma fullyrðingar um að ungt fólki hafi ekki áhuga á stjórnmálum þá gæti ég ekki verið meira ósammála. Það er sjaldan sem maður lendir í jafn líflegum skoðanaskiptum og einmitt við yngri kjósendur og ungt fólk hefur mjög sterkar skoðanir, auðvitað ekki allir þeir sem eru ungir en mjög margir í yngri aldurshópunum hafa mjög sterkar skoðanir á því í hvers konar samfélagi þeir vilja búa. Það má segja að við höfum upplifað, sérstaklega á síðustu árum fyrir hrun, einhvers konar aflýðræðisvæðingu ungs fólks. Það var til dæmis bannað að pólitískir flokkar og alls kyns pólitísk samtök kæmu með umræðu inn í framhaldsskóla. Að sjálfsögðu á að gæta þess að einhverjir ákveðnir hópar nái ekki upp áróðursstöðu gagnvart framhaldsskólum en auðvitað eiga framhaldsskólar að vera opnir fyrir lýðræðislegar umræður. Ég held að við séum meðal annars að súpa seyðið af því að hafa gefið okkur þá staðreynd að ungt fólk hafi ekki sérstakan áhuga á stjórnmálum. Það hefur sýnt sig að það hefur áhuga og má meðal annars sjá það á því að þegar borgarstjórinn okkar í Reykjavík, Jón Gnarr, bauð sig fram með Besta flokknum og kom með aðra mynd á stjórnmálin flykktist ungt fólk að því stjórnmálaafli. Það sama má segja um Pírata sem sitja hér á þingi. Um leið og stjórnmálin fara að taka á sig aðeins líflegri og annars konar myndir en þau hafa dags daglega er ungt fólk algerlega tilbúið til að taka þátt í þeirri lýðræðislegu umræðu. Það er mikilvægt að við tökum alvarlega vísbendingar um litla eða minnkandi kosningaþátttöku.

Það eru þær kynslóðir sem eiga síðan að taka við stjórn landsins og taka við sem máttarstólpar í þessu samfélagi, bera uppi menntakerfið, heilbrigðiskerfið og allar þær stofnanir samfélagsins sem eiga að vera góðar og vinna í þágu almannahagsmuna. Það er mjög alvarlegt ef kjósendum fækkar hlutfallslega til frambúðar. Það er alvarlegt fyrir lýðræðisþróun og við viljum ekki að það hendi. Þess vegna er mikilvægt að við samþykkjum þessa tillögu, fáum óyggjandi upplýsingar um þróun mála og getum síðan fundið leiðir til að bregðast við.

Herra forseti. Það er svo að mál sem varða kosningar eiga að fara til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, ég veit að þar er mikill fjöldi mála. Mál sem varða Hagstofu eiga að vera, að mér skilst, í allsherjar- og menntamálanefnd. Því tel ég sem flutningsmaður málsins að æskilegt væri að málið færi inn í allsherjar- og menntamálanefnd fremur en stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Ég bið hæstv. forseta einfaldlega að úrskurða í því máli og telji hann að hægt sé að verða við ósk minni um allsherjar- og menntamálanefnd fagna ég því en að öðrum kosti sæti ég úrskurði forseta.