143. löggjafarþing — 12. fundur,  30. okt. 2013.

mótun geðheilbrigðisstefnu og aðgerðaáætlunar.

89. mál
[19:01]
Horfa

Flm. (Sigríður Ingibjörg Ingadóttir) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir þingsályktunartillögu þingmanna Samfylkingarinnar, Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Framsóknarflokks, Bjartrar framtíðar og Pírata.

Í tillögu okkar felst að Alþingi álykti:

„… að fela heilbrigðisráðherra, í samvinnu við félags- og húsnæðismálaráðherra, að móta geðheilbrigðisstefnu og gera aðgerðaáætlun þar sem fram komi meðal annars greining á núverandi geðheilbrigðisþjónustu, hvar þörfin sé mest fyrir þjónustuna og hvernig megi mæta henni ásamt stefnumótun til framtíðar í geðheilbrigðismálum fyrir alla landsmenn. Ráðherra leggi slíka geðheilbrigðisstefnu fram á vorþingi 2014.“

Árið 2005 staðfesti þáverandi heilbrigðisráðherra, Jón Kristjánsson, yfirlýsingu Evrópudeildar Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar um aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum. Yfirlýsingin fól í sér hvatningu til aðildarríkja að innleiða geðheilbrigðisstefnu í áætlunum sínum og löggjöf sem byggir á fyrirliggjandi þekkingu og almennum mannréttindum og í samráði við alla aðila á geðheilbrigðissviði. Hún fól einnig í sér áheit um að fjárveitingar yrðu auknar til geðheilbrigðismála innan hvers ríkis og til fjölþjóðlegs samstarfs.

Nú, átta árum síðar, hefur enn ekki verið mótuð heildstæð geðheilbrigðisstefna fyrir Ísland og er það markmið þessarar þingsályktunartillögu að slík stefna verði kynnt hér í þinginu á vormánuðum. Hingað til hafa geðheilbrigðismál iðulega lítið vægi í heilbrigðisáætlunum stjórnvalda. Þess ber þó að geta að í tillögu til þingsályktunar um velferðarstefnu, heilbrigðisáætlun til ársins 2020, sem lögð var fram á 141. löggjafarþingi, var lagt til að mótuð yrði geðheilbrigðisstefna sem tæki til allra aldurshópa. Málið var afgreitt úr nefnd en komst því miður ekki til afgreiðslu í þingsal.

Ég vil jafnframt geta þess að þverpólitísk samstaða var í velferðarnefnd á þessu þingi um að hefja umfjöllun um geðheilbrigðismál. Við héldum sérstakan stóran fund um þau málefni með ýmsum hagsmunaaðilum og aðilum úr heilbrigðiskerfinu til þess að fjalla sérstaklega um geðheilbrigðismál með það í huga að nefndin flytti í sameiningu tillögu um mótun geðheilbrigðisstefnu. Síðan kom fram þessi tillaga frá ráðherra um heilbrigðisáætlun og létum við þá málið niður falla enda vorum við með stjórnarmál þess efnis. En nú þegar svo er komið að engin geðheilbrigðisáætlun er á dagskrá þingsins taldi ég rétt að flytja þessa þingsályktunartillögu og fékk ríkulegan stuðning úr ýmsum áttum til þess.

Geðheilbrigðismál hafa fengið mikla athygli í þjóðfélagsumræðunni hin síðustu ár og bent hefur verið á skort á þjónustu og skipulagsleysi í málaflokknum. Fjárveitingar hafa ekki verið í hlutfalli við þann fjölda einstaklinga sem undir málaflokkinn falla né í nokkru samræmi við þörf á þjónustunni. Þar af leiðandi hefur uppbygging og þróun á sviði geðheilbrigðismála ekki verið í samræmi við mörg önnur svið heilbrigðisþjónustunnar. Þessu til marks stóð átakið Á allra vörum fyrir söfnun fyrir geðgjörgæsludeild á Landspítalanum nú á haustdögum og söfnuðust 47 milljónir króna fyrir það bráðnauðsynlega verkefni.

Góð geðheilsa og andleg vellíðan er undirstaða lífsgæða og framleiðni meðal einstaklinga, fjölskyldna og samfélaga. Góð geðheilsa gerir fólki fært að finna tilgang með lífinu og vera virkt og skapandi. Meginmarkmið Íslendinga í geðheilbrigðismálum ætti því að vera að stuðla að vellíðan og starfshæfni fólks með því að beina sjónum að styrkleikum þeirra og getu auk sveigjanleika kerfisins og leggja áherslu á forvarnir. Góð geðheilsa er okkur öllum afar mikilvæg bæði sem einstaklingum og sem samfélagi. Því er nauðsynlegt að halda áfram að auka þekkingu okkar og vitund um geðheilbrigðismál og vinna gegn fordómum og mismunun innan heilbrigðiskerfisins og í samfélaginu öllu.

Geðheilsu má skipta í þrjá flokka. Í fyrsta lagi er almenn geðheilsa okkar allra sem efla skal og varðveita með geðræktandi aðgerðum og jafnri og sanngjarnri stefnumótun og aðgerðum í samfélaginu. Í öðru lagi er geðheilsa stækkandi hóps sem greindur er með geðröskun en geðraskanir eru næstalgengasti heilbrigðisvandi Evrópu á eftir hjarta- og æðasjúkdómum. Ætla má að hlutfall þeirra sem glíma við geðraskanir á hverjum tíma sé einn af hverjum fjórum. Í þriðja lagi er það geðheilsa þeirra sem búa við geðfötlun af völdum alvarlegra geðraskana. Talið er að um 2,7% fólks séu með geðfötlun en um þriðjungur nýgengi örorku er vegna geðfatlana.

Geðheilbrigðismál ná yfir bæði svið heilbrigðisþjónustu og félagsþjónustu og þarf stefnumótun í málaflokknum að taka mið af því. Þörf er á að samþætta heilbrigðis- og félagsþjónustu fyrir þann hóp sem þarf á slíkri þjónustu að halda svo að skapa megi eðlilega samfellu í þjónustunni. Í núverandi kerfi er hætta á að fólk lendi á milli ólíkra þjónustukerfa. Það er mat flutningsmanna að nauðsynlegt sé að skoða geðheilbrigðismálin og þá þjónustu sem í boði er með heildstæðum hætti og leggja mat á þörf fyrir ný úrræði til framtíðar. Samfara því fari fram stefnumótun í málaflokknum til lengri tíma.

Í dag er skipulag þjónustunnar þrískipt: Í fyrsta lagi sinnir heilsugæslan mörgum einstaklingum sem glíma við geðraskanir og andlega erfiðleika. Í öðru lagi er þjónusta utan spítala, svo sem göngudeildir, samfélagsteymi og einkareknar stofur sérfræðilækna. Í þriðja lagi eru geðdeildir innan sjúkrahúsa sem sinna bráðveikum og sérhæfðum vandamálum á borð við samspil geðraskana og vímuefnamisnotkunar og endurhæfingu.

Þá má bæta við upptalninguna fjórða hluta geðheilbrigðisþjónustunnar, sem unninn er af frjálsum félagasamtökum á borð við Rauða krossinn, Geðhjálp, Geysi, Hlutverkasetur og Hugarafl. Félagasamtök hafa gjarnan veitt nauðsynlega þjónustu þar sem hið opinbera hefur ekki verið þess megnugt og í gegnum tíðina hafa þau haft mikil áhrif á innleiðingu nýrrar hugmyndafræði og aðferða við að veita þjónustu. Þróun hugmyndafræðinnar um það hvernig best má þjónusta fólk með geðraskanir hefur einkennst af aukinni þekkingu á meðferðum en ekki síður á kröfum um breytt viðhorf, aukna valdeflingu og aukna virðingu fyrir réttindum þeirra sem njóta þjónustunnar. Þess er krafist að meðferðarúrræði séu hugsuð út frá samfélagsnálgun, þ.e. að þjónustan sé færð út af stofnununum og nær skjólstæðingnum með aukinni og virkari þátttöku þeirra.

Í greinargerð tillögunnar er að finna ákveðin atriði sem að mati flutningsmanna þarf að víkja að í þeirri geðheilbrigðisstefnu og aðgerðaáætlun sem lagt er til að ráðherra leggi fram. Þau eru meðal annars að efla skuli heilsugæsluna sem fyrsta stig geðheilbrigðisþjónustu í samvinnu við aðra velferðarþjónustu og að heilsugæslan sé almennt fyrsti viðkomustaður vegna geðraskana og sinni meðferð og eftirfylgni. Að vinna markvisst gegn fordómum, mismunun og félagslegri einangrun innan heilbrigðisstofnana sem utan; tryggja rétt nauðungarvistaðra og leita leiða til að binda enda á nauðungarvistanir eða bæta framkvæmd þeirra þannig að hinir nauðungarvistuðu og aðstandendur þeirra hljóti ekki skaða af og réttur þeirra sé tryggður; samþætta bataferli og valdeflingu í geðheilbrigðisþjónustu; tryggja samfellu í þjónustu frá fyrstu einkennum til meðferðar og annarra úrræða; bæta þjónustu við aðstandendur og tryggja að fjárveitingar séu á grundvelli þeirra þarfa sem hafa verið skilgreindar sem viðmið.

Herra forseti. Nútímasamfélag er flókið og við þekkjum öll það álag sem fylgir því að vera nútímamanneskja og rækja öll þau hlutverk sem okkur eru falin. Við mótun skýrrar stefnu í geðheilbrigðismálum og aðgerðaáætlunar til framtíðar komum við sem samfélag til móts við stóran hóp fólks og segja má að geðheilbrigðismál séu eitt af stærstu lýðheilsumálunum sem við þurfum að taka á með myndarlegum hætti. Við þurfum að virkja til þátttöku nýjan og ört stækkandi hóp. Þannig aukum við í heild velferð Íslendinga og heilbrigði.

Herra forseti. Ég legg til að þessari tillögu verði vísað til velferðarnefndar.