143. löggjafarþing — 13. fundur,  31. okt. 2013.

atvinnutækifæri fyrir ungt fólk.

[10:42]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Jú, ég deili áhyggjum hv. þingmanns. Þetta eru að vísu áhyggjur sem menn hafa mjög víða á Vesturlöndum þessa dagana, í Evrópusambandinu og á evrusvæðinu. Í Eystrasaltslöndunum hafa menn náð alveg ótrúlegum árangri með nýsköpun og skapandi greinar, ekki hvað síst í Eistlandi sem er alveg stórkostlegt land. Jafnvel þar horfa menn upp á það að fyrirtæki og ungt fólk flytur til annarra landa, t.d. til Bretlands, til að byggja upp fyrirtæki sín þar. Það eru ekki hvað síst Bandaríkin og Bretland sem soga slíka starfsemi til sín. Það breytir ekki því að að sjálfsögðu viljum við reyna sem mest að vega upp á móti þessum sogkrafti og hafa Ísland sem aðgengilegast og mest aðlaðandi fyrir fólk í skapandi greinum og nýsköpun. Ég ætla ekkert að gera ágreining við hv. þingmann um mikilvægi þeirra greina. Mér finnst reyndar stundum gleymast að taka með í reikninginn mikilvægi undirstöðuatvinnugreina þjóðarinnar sem eru líka skapandi greinar. Sjávarútvegurinn er líklega mest skapandi grein á Íslandi um þessar mundir. Mest nýsköpun, flest ný störf og ný tækni verða til í greinum tengdum sjávarútvegi. En fleira þarf til og ástæða er til að hvetja sem mest til slíkrar starfsemi.

Sú fjárfestingaráætlun sem hv. þingmaður vísaði til var ekki alveg nógu góð að mati núverandi ríkisstjórnar og ekki til þess fallin að samfélagið fengi sem mest fyrir það fjármagn sem í hana var sett, auk þess sem ekki var búið að fjármagna hana sem skyldi. Þar af leiðandi hafa menn ekki fylgt þeirri fjárfestingaráætlun. Hins vegar eru framlög til skapandi greina nú með því mesta sem nokkurn tímann hefur verið ef frá er talið í sumum tilvikum það aukaframlag sem menn sáu fyrir sér að kæmi vegna þeirrar fjárfestingaráætlunar sem ekki hafði verið fjármögnuð.