143. löggjafarþing — 13. fundur,  31. okt. 2013.

sjúkraflutningar.

[10:54]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra út í sjúkraflutninga og lausnir á þeim ágreiningsefnum sem uppi eru í samskiptum við sveitarfélög hvað það mál varðar. Til hv. fjárlaganefndar hafa komið sveitarfélög undanfarna daga og nokkur þeirra farið yfir þau vandræði sem skapast ef ekki verður ljóst fyrir 1. nóvember hvað ríkið hyggst fyrir með málaflokkinn. Hæstv. heilbrigðisráðherra hefur sjálfur sagt að lausnin verði komin fyrir 1. nóvember — sem er á morgun.

Í fjárlagafrumvarpinu kemur fram að ósamið sé um sjúkraflutninga á höfuðborgarsvæðinu en í bréfi frá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins kemur hins vegar fram að í febrúar sl. hafi samninganefnd ríkisins og Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins komist að samkomulagi sem nýr samningur er byggður á. Samningurinn hefur hvorki verið undirritaður né greitt í samræmi við raunkostnaðarmatið sem lá samningnum til grundvallar. Í bréfinu kemur einnig fram að þolinmæði sveitarfélaganna sé á þrotum, að þau líti svo á að vilji ríkisins til samvinnu sé takmarkaður þar sem í fjárlagafrumvarpinu er ekki gert ráð fyrir greiðslum á árinu 2014 samkvæmt samningnum.

Stjórn Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins telur eðlilegt að verklok hefjist á morgun, 1. nóvember, og að sjúkraflutningar verði algjörlega af þeirra höndum innan 3–6 mánaða. Jafnframt er harmað að það stefni í aðskilnað sjúkraflutninga og slökkvistarfs sem séu þjónustuþættir sem styðji hvor annan.

Ég spyr hæstv. heilbrigðisráðherra hver staðan sé á þessu máli, hvort búast megi við tillögum í fjáraukalögum sem geri ráð fyrir að samningurinn frá því fyrr á þessu ári verði uppfylltur og breytingartillögum við 2. umr. um fjárlagafrumvarpið hvað þetta varðar.

Ef hæstv. ráðherra svarar þessum spurningum neitandi spyr ég að auki hvort hann treysti á að fjárlaganefnd hafi frumkvæði í málinu.