143. löggjafarþing — 13. fundur,  31. okt. 2013.

njósnir bandarískra yfirvalda á Íslandi og víðar.

[11:01]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Við lifum á tímum sem eiga vonandi eftir að verða skráðir á spjöld sögunnar því að vonandi verður það ekki viðvarandi ástand að stórveldi heimsins eða ríkisvald yfirleitt gangist fyrir annarri eins njósnastarfsemi um einstaklinga og hópa þar á meðal og ekki síst stjórnmálamenn, jafnt á meðal samherja sem annarra, og Bandaríkin hafa nú orðið uppvís að. Staðhæft er í fjölmiðlum að Ísland sé í hópi 23 ríkja sem hafi haft náið samstarf við Öryggisstofnun Bandaríkjanna hvað þetta snertir. Þessar staðhæfingar koma mér mjög á óvart en við verðum að ganga úr skugga um hvað er rétt í þeim efnum. Ég get upplýst Alþingi um að á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis í morgun var ákveðið að taka þetta mál upp og grafast fyrir um hvað er rétt.

Ríki heimsins og forustumenn þeirra krefja nú Bandaríkin um upplýsingar jafnframt því sem þau mótmæla slíkum njósnum. Fram hefur komið að íslensk stjórnvöld hafa gert hið sama. Það hefur komið fram í máli hæstv. forsætisráðherra, en ég beini þessari spurningu til hans: Hafa bandarísk yfirvöld formlega verið beðin um að upplýsa hvað rétt er hvað varðar njósnir á hendur Íslendingum og íslenskum stjórnmálamönnum og hefur verið óskað eftir formlegum svörum í þeim efnum?