143. löggjafarþing — 13. fundur,  31. okt. 2013.

njósnir bandarískra yfirvalda á Íslandi og víðar.

[11:05]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir jákvæð viðbrögð. Um þessi efni er ekki ágreiningur í þessum sal hygg ég, ég hygg að hér sé fullkomin samstaða um að við viljum leiða hið rétta í ljós.

Ég fagna því að formlega hafi verið komið á framfæri mótmælum og athugasemdum við bandarísk yfirvöld og að formlega hafi verið óskað eftir viðbrögðum og svörum Bandaríkjastjórnar. Mér finnst eðlilegt að þegar þau formlegu svör berast verði Alþingi gerð grein fyrir þeim og við munum að sjálfsögðu óska eftir því í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis að fá að fylgjast með þeim samskiptum.

Að öðru leyti fagna ég viðbrögðum hæstv. forsætisráðherra. Ég tel mjög brýnt að framhald verði á þessari umræðu á Alþingi, ekki aðeins á komandi vikum og mánuðum heldur á næstu dögum. Það er þess vegna sem Vinstri hreyfingin – grænt framboð (Forseti hringir.) hefur óskað eftir því að fram fari hið allra fyrsta (Forseti hringir.) umræða utan dagskrár um þessi alvarlegu mál.