143. löggjafarþing — 13. fundur,  31. okt. 2013.

átak til atvinnuuppbyggingar í Austur-Húnavatnssýslu.

107. mál
[11:36]
Horfa

Flm. (Haraldur Benediktsson) (S):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir tillögu til þingsályktunar um átak stjórnvalda og sveitarfélaga í Austur-Húnavatnssýslu til atvinnuuppbyggingar. Flutningsmenn þingsályktunartillögunnar að þessu sinni eru þingmenn Norðvesturkjördæmis og eru taldir upp á þingskjalinu: Einar K. Guðfinnsson, Ásmundur Einar Daðason, Haraldur Benediktsson, Guðbjartur Hannesson, Elsa Lára Arnardóttir, Jóhanna María Sigmundsdóttir og Lilja Rafney Magnúsdóttir.

Efni ályktunarinnar hljóðar svo: Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að koma á samstilltu átaki stjórnvalda og sveitarfélaga í Austur-Húnavatnssýslu um eflingu atvinnulífs og sköpun nýrra starfa á Norðurlandi vestra með nýtingu raforku sem framleidd er í Blönduvirkjun. Markmiðið með átakinu er að efla samkeppnishæfni svæðisins og undirbúa það fyrir þá uppbyggingu sem fylgir orkunýtingu Blönduvirkjunar og jafnframt vinna að markaðssetningu svæðisins sem iðnaðarkosts, svo sem fyrir gagnaver.

Í greinargerð segir meðal annars að þingsályktunartillaga þessi hafi áður verið flutt af þáverandi þingmönnum Norðvesturkjördæmis á 141. löggjafarþingi en hafi eigi verið útrædd og sé því flutt að nýju.

Norðurland vestra hefur gengið í gegnum miklar breytingar er varða atvinnuhætti mörg undanfarin ár. Fækkun starfa í hefðbundnum atvinnugreinum, svo sem sjávarútvegi og landbúnaði, hefur leitt til mikillar byggðaröskunar sem birtist í mikilli fólksfækkun sem vart á sér hliðstæður hér á landi hin síðari ár. Samkvæmt upplýsingum Byggðastofnunar hefur íbúum á svæðinu fækkað um tæplega 1.000 milli áranna 1997 og 2010. Til samanburðar voru íbúar Blönduóss um 880 árið 2011 þannig að fækkunin nemur rúmlega íbúafjölda þess sveitarfélags yfir 14 ára tímabil.

Sveitarstjórnir á Norðurlandi vestra og samtök þeirra hafa um langa hríð ályktað sérstaklega um að orka Blönduvirkjunar verði nýtt til atvinnuuppbyggingar á svæðinu. Ríkir því góð samstaða meðal heimamanna um þá stefnu.

Frá því að byggingu Blönduvirkjunar lauk árið 1991 hafa sveitarfélög í Austur-Húnavatnssýslu unnið að því að laða orkufrekan iðnað í héraðið. Orka frá Blönduvirkjun er ekki nýtt á svæðinu en veruleg hagkvæmni er í því fólgin að nýta orkuna sem næst virkjunarstað og komast þannig hjá flutningstapi orku. Sveitarfélögin nyrðra hafa um árabil unnið með innlendum sem og áhugasömum erlendum aðilum að uppbyggingu gagnavers á Blönduósi. Aðalskipulag Blönduósbæjar gerir ráð fyrir 272 hektara lóð í 40 metra hæð yfir sjávarmáli undir slíka starfsemi. Landið er í eigu sveitarfélagsins Blönduósbæjar. Sveitarfélögin hafa í samstarfi við innlend verkfræðifyrirtæki unnið að því að frumhanna lóðina að teknu tilliti til þess að gagnaver muni rísa á svæðinu. Jafnframt hefur verið lokið við frumhönnun á sjókæliveitu fyrir gagnaverið.

Hinir miklu kostir þess að reisa gagnaver á Blönduósi eru eftirfarandi: Nálægð við Blönduvirkjun, umhverfisvæn og græn orka, góðar raforku- og ljósleiðaratengingar, lítil náttúruvá, svo sem eldvirkni, jarðskjálftar og flóðahætta, valkostir í kælingu, svæðið er tiltölulega kalt, gott byggingarland í eigu sveitarfélagsins, lóðin er tilgreind í aðalskipulagi Blönduósbæjar, öll almenn og sértæk þjónusta er til staðar innan 50 kílómetra radíusar frá lóðinni og alþjóðaflugvöllur er innan 150 kílómetra fjarlægðar.

Samstarf við innlenda og erlenda aðila sem reynslu hafa af byggingu gagnavera hefur leitt í ljós að svæðið er kjörið fyrir starfsemi öflugs gagnavers sem krefst verulegrar raforku með miklu afhendingaröryggi, gnægð byggingarlands og góðum kælimöguleikum. Orkuöryggið byggist að verulegu leyti á nálægð við Blönduvirkjun og tengivirki Landsnets við Laxárvirkjun. Náttúruleg vá er í lágmarki miðað við íslenskar aðstæður þar sem svæðið er utan virkra eldfjalla- og jarðskjálftasvæða. Hætta á flóðbylgjum, snjóflóðum og skriðuföllum er ekki heldur til staðar.

Ísland býr yfir umhverfisvænni og endurnýjanlegri orku, en það skiptir fjárfesta sífellt meira máli að starfsemi fyrirtækja sé með eins umhverfisvænum hætti og unnt er. Þá er vinnuafl hér á landi vel menntað og vinnumarkaður sveigjanlegur, greiður aðgangur er að miklu magni hreins vatns og viðskiptaumhverfið hefur að mörgu leyti verið hagstætt. Miklu skiptir að breikka útflutningsgrundvöll þjóðarinnar, auka útflutning, efla gjaldeyrissköpun og auka framleiðslu og framleiðni. Sköpun nýrra atvinnutækifæra er ein meginforsenda fyrir viðsnúningi í íbúaþróun á Norðurlandi vestra. Því er afar brýnt að koma á samstilltu átaki stjórnvalda og heimamanna í sköpun nýrra starfa, m.a. með nýtingu þeirrar raforku sem framleidd er í Blönduvirkjun. Efla þarf samkeppnishæfni svæðisins og undirbúa það fyrir þá uppbyggingu sem fylgir orkunýtingu Blönduvirkjunar og jafnframt vinna að markaðssetningu svæðisins sem alvöru iðnaðarkosts.

Er ríkisstjórninni með þingsályktunartillögu þessari falið að finna bestu leiðina til þess að koma á samstilltu átaki stjórnvalda og heimamanna.