143. löggjafarþing — 13. fundur,  31. okt. 2013.

raforkustrengur til Evrópu.

106. mál
[12:12]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil eins og hv. þingmenn þakka fyrir þessa umræðu, ég held að hún sé af hinu góða. Ég hef reyndar sagt það í ræðu hér á þinginu um þessi mál að í nútímanum og á næstu mánuðum skipti miklu meira máli að við ræðum þau vandamál sem eru í samfélaginu og snúa að því að koma stórum og miklum atvinnutækifærum af stað. Það vantar í þau raforku, og ég held að það sé málið sem við þurfum að vinna fyrst að.

Ég held að jafnhliða því sé sjálfsagt að skoða þessi mál til lengdar. Ég er alveg sannfærður um að í framtíðinni þurfum við að vera klár og búin að kanna þessi mál. Ég þakka flutningsmönnum fyrir að vekja máls á því. Við þurfum líka að spyrja okkur þeirrar spurningar hvort við séum frekar tilbúin að reisa virkjanir til að flytja rafmagnið út en að hirða af því virðisaukann hérna heima. Við þurfum auðvitað að vera klár í þá umræðu. Er hún ekki hluti af þessu? Með því að flytja út tæplega 800 megavött í gegnum sæstreng 1.200 km leið til Englands þarf að virkja töluvert mikið. Við þurfum að velta því fyrir okkur hvort þjóðhagslegur hagvöxtur af slíku rafmagni verði meiri með því að framleiða verðmæta vöru og skapa fjölbreytt og vel launuð störf í landinu, sem er líka mjög mikilvægt verkefni fyrir okkur að vinna að.

Ég vil enn og aftur þakka fyrir góða umræðu. Það er ekkert svart/hvítt í þessu, finnst mér. Við þurfum að hafa þrek í að tala saman um þessi mál og finna þá niðurstöðu sem er best fyrir land og þjóð.