143. löggjafarþing — 13. fundur,  31. okt. 2013.

um fundarstjórn.

[12:19]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Það vekur athygli mína að dagskrá dagsins í dag er tæmd. Klukkan er 12.20 og þingfundur var settur klukkan 10.30. Það vekur athygli mína að hér eru fyrst og fremst þingmannamál á dagskrá eins og hefur verið og það sem ég vil gjarnan inna hæstv. forseta og hv. forsætisnefnd eftir er hvort það sé ekki algerlega öruggt að í ljósi þess að ekki eru lögð fram mörg stjórnarfrumvörp þessa dagana, eins og allir hafa tekið eftir, taki nefndir þingsins, þar sem ekki hefur verið fundað einu sinni í þeim öllum að undanförnu, til umræðu og afgreiðslu þau þingmannamál sem hér er mælt fyrir þannig að við getum treyst því að þau mál sem eru uppistaðan í dagskrá þingsins hljóti afgreiðslu, það sé ekki bara verið að mæla fyrir þeim og þau hverfi svo inn í nefndir.

Mig langar að inna hæstv. forseta eftir því hvort þetta verði ekki tekið upp í forsætisnefnd og rætt við formenn nefnda.