143. löggjafarþing — 13. fundur,  31. okt. 2013.

um fundarstjórn.

[12:22]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Hæstv. forseti. Ég tek undir þessi hvatningarorð til forseta um að þingmannamálin sem eru afskaplega góð, mörg hver ef ekki öll, fái efnislega umfjöllun í nefndum, komi til 2. umr., eða síðari eftir atvikum, og við sökkvum ekki í farið sem var á árunum upp úr aldamótum. Ég gerði einu sinni rannsókn á ársskýrslum Alþingis til að athuga hversu mörg þingmannamál voru samþykkt á árabilinu 2001–2009, að ég held, og mig minnir að þau hafi verið sex. Ég held það. Þannig var þetta einu sinni. Svo hefur þetta sem betur fer batnað á liðnum árum, það er hægt að koma í gegn málum og nú streyma inn í þingsal mál frá þingmönnum.

Það er auðvitað óvenjulegt að þau komi svona fá frá ríkisstjórninni en mér persónulega finnst það svolítið gaman vegna þess að við í Bjartri framtíð erum að leggja fram fullt af málum sem við teljum í mörgum tilvikum að sé meiri hluti fyrir í þingsal. Nú er um að gera að blása til funda í nefndum, klára þessi mál og gera það hratt og vel.