143. löggjafarþing — 13. fundur,  31. okt. 2013.

um fundarstjórn.

[12:25]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég vil bara taka undir það sem hér hefur verið sagt. Maður undrast svolítið þessa þurrð á frumvörpum. Við þingmenn höfum margir hverjir nóg að gera en það væri allt í lagi að hafa aðeins meira að gera. Ég mundi ekki kvarta undan því að vinna meira í nefndunum, sérstaklega á næstu dögum, þannig að ég tek bara undir það sem hér var sagt. Ríkisstjórnin mætti gjarnan leggja fram fleiri mál og bera undir okkur í nefndunum.

Þá langar mig að minnast sérstaklega á þingsályktunartillögu hv. þm. Péturs H. Blöndals sem við ræddum hérna áðan, þingmenn eru ólmir í að starfa með ríkisstjórninni að stefnumyndandi frumvörpum og ég hvet ríkisstjórnina enn fremur í því ljósi til að hjálpa okkur að finna hvað það er sem ríkisstjórnin vill koma í gegn og þá getum við öll unnið sameiginlega í nefndunum.