143. löggjafarþing — 13. fundur,  31. okt. 2013.

um fundarstjórn.

[12:26]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég tek undir þær vangaveltur sem hér hafa komið fram. Raunar held ég að það sé full ástæða til að endurskoða starfsáætlun þingsins með hliðsjón af þeirri stöðu sem upp er komin. Það voru gefin fögur fyrirheit í upphafi þings og forseti ræddi það sérstaklega að þrýsta á ríkisstjórnina með að flýta framlagningu stjórnarfrumvarpa. Það hefur ekki gengið eftir þannig að það er tilefni til að endurskoða starfsáætlunina og í ljósi þess tek ég undir það sem hv. þm. Árni Þór Sigurðsson nefndi áðan um að forsætisnefnd taki þá til skoðunar að efna til nefndadaga í upphafi næstu viku þannig að við getum gefið okkur tíma í þau fjölmörgu þingmannamál sem hefur nú þegar verið mælt fyrir, bæði í gær og í dag, og raunar er líka stefnt að því að gera slíkt hið sama á morgun. Þá gætu þingstörfin haldið eðlilega áfram frekar en að við söfnum í skafla málum sem verða síðan sett á bið (Forseti hringir.) þegar stjórnarfrumvörpin líta loksins dagsins ljós.