143. löggjafarþing — 13. fundur,  31. okt. 2013.

um fundarstjórn.

[12:30]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Vegna orða þingflokksformanns Sjálfstæðisflokksins vil ég ítreka það sem ég sagði fyrr undir þessum lið, um fundarstjórn forseta, að ég fagnaði því að hér eru þingmannafrumvörp og þingsályktunartillögur að renna í gegn og eru uppistaða dagskrárinnar í dag og á morgun og reyndar fyrr á þessu þingi. Það sem við erum að biðja um og leggja áherslu á er einmitt að þessi þingmannamál fái afgreiðslu, að settir verði upp nefndadagar og að störfunum í þinginu verði hagað þannig að við getum afgreitt þessi mál og gengið frá þeim alveg til enda en að þau safnist ekki upp.

Ég heyrði engan hér kalla eftir stjórnarfrumvörpum heldur aðeins benda á að þau eru ekki hér og þar með hefur skapast rými fyrir þingmenn til að setja sín mál í gegn.