143. löggjafarþing — 13. fundur,  31. okt. 2013.

um fundarstjórn.

[12:33]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Vegna orða hv. þm. Ragnheiðar Ríkharðsdóttur hér áðan er allt í lagi að rifja upp að við höfum áður verið hvort í sínu hlutverkinu í þingsal, í stjórn og stjórnarandstöðu. Í sjálfu sér á þetta mál ekki að snúast um það hver er í stjórn og hver í stjórnarandstöðu hverju sinni eins og hv. þingmaður gat um, ég er sammála því. Það sem maður hefur hins vegar fulla ástæðu til að hafa áhyggjur af er að á þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar eru vel á annað hundrað þingmál sem er boðað að komi inn í þingið. Reynslan segir manni að þegar þau líta dagsins ljós, hvenær sem það kann að vera, verður öðru rutt til hliðar.

Það er ekki bara vegna þess að nú eru Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur í ríkisstjórn. Þannig hefur það verið um mjög langt skeið í Alþingi. Af þessu hefur maður áhyggjur. Þegar málin loksins koma fram verður öðru rutt til hliðar, líka í nefndarstarfinu. Þess vegna hvetjum við til þess að núna verði gefið svigrúm í nefndarstarfinu (Forseti hringir.) til að vinna þau mál sem þrátt fyrir allt eru þangað komin.