143. löggjafarþing — 14. fundur,  1. nóv. 2013.

störf þingsins.

[10:45]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Mig langar að gera hér aðeins að umtalsefni áhyggjur vegna verðlagsþróunar í landinu, verðbólgu og verðlagshækkana sem boðaðar eru, m.a. af hálfu sveitarfélaganna. Greint er frá því í fjölmiðlum að Reykjavíkurborg hyggist hækka gjaldskrár sínar, ekki síst á barnafólk. Leikskólagjöld eru þar á meðal, gjöld í frístundaheimilum og gjöld fyrir ýmsa þjónustu í skólum, eins og skólamáltíðir. Við sjáum líka þróun á undanförnum missirum þar sem greint hefur verið frá hækkun á rafmagni, hita, orkukostnaði, almenningssamgöngum o.s.frv. Síðan sjáum við hækkun á nauðsynjavöru í samfélaginu almennt, margvíslegri matvöru. Til að mynda hefur mjólk hækkað umtalsvert á undanförnum vikum og mánuðum. Auk þess má síðan horfa á skattbreytingar og ýmislegt sem ríkisstjórnin leggur inn í umræðuna, skatta á sjúklinga í fjárlagafrumvarpinu, skattbreytingar þar sem lágtekjufólkið situr eftir.

Það er verulegt áhyggjuefni að verðlagsbreytingar fara umtalsvert umfram verðbólgumarkmið Seðlabankans. Það getur bara þýtt kjararýrnun, það hlýtur að þýða erfiðari kjarasamninga sem í hönd fara. Ég held að allir séu sammála um að ganga verði út frá því svigrúmi sem til er í samfélaginu en eftir sem áður verður að horfa til þess að það er mikil misskipting og tekjumunurinn er mikill í samfélaginu. Það er mjög áríðandi að kjarasamningarnir, sérstaklega hækkun og svigrúm sem í kjarasamningunum felst, beinist að lágtekjuhópunum, ekki síst þegar horft er á þá þróun í verðlagsmálum, bæði hjá sveitarfélögum og ríkinu, sem við höfum horft upp á núna undanfarna daga og vikur.