143. löggjafarþing — 14. fundur,  1. nóv. 2013.

störf þingsins.

[10:50]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Herra forseti. Ég hef á undanförnum dögum átt þess kost að ferðast um kjördæmi mitt og hitta sveitarstjórnir og síðan hefur fjárlaganefnd líka verið að funda með nær öllum sveitarstjórnum á landinu og þetta hefur verið virkilega áhugavert.

Það hefur vakið athygli mína að yfirgnæfandi fjöldi þeirra sveitarstjórnarmanna sem ég hef hitt eru karlkyns. Í flestum tilfellum eru oddvitar og sveitarstjórar karlkyns. Ég skoðaði aðeins tölfræðina og hún sýnir að hlutfall kvenna sem sveitarstjórar er rétt rúm 35%. Í síðustu sveitarstjórnarkosningum var hlutfall frambjóðenda í fyrsta sæti í hinum og þessum flokkum konum mjög í óhag. 46 konur leiddu lista en 139 karlar, sem sagt 75% þeirra sem leiddu lista voru karlar og það skilar sér eðlilega í fleiri karlkynsoddvitum sveitar- og bæjarstjórna.

Samkvæmt Hagstofunni var hlutfall kvenna sem bæjarstjórar, sveitarstjórar og oddvitar í október 2011 32% en hlutfall karla 68%. Þó eru hlutföllin ekki það ójöfn þegar kemur að sveitarstjórnum almennt því að þar eru konur 40% en karlar 60%, en einhvern veginn skilar þátttaka kvenna í sveitarstjórnum sér ekki í oddvitasætin. Til að hafa það alveg á hreinu virka þeir karlmenn almennt mjög færir og ég er ekkert að setja út á þá, en mér finnst að við þurfum að njóta krafta kvenna í auknum mæli. Þess vegna vil ég nota tækifærið og hvetja konur til þess að taka þátt í sveitarstjórnarkosningunum í vor.