143. löggjafarþing — 14. fundur,  1. nóv. 2013.

verslanaskrár, firmu og prókúruumboð, sameignarfélög og fyrirtækjaskrá.

132. mál
[11:13]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég fagna orðum hv. þingmanns um að hann taki undir það með mér að hér sé um framfarir og einföldun að ræða. Það er rétt, eins og fram kom í máli mínu, að gert er ráð fyrir að fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra þurfi að bæta við sig einum starfsmanni og ekki hefur verið gert ráð fyrir því í forsendum fjárlagafrumvarps, enda var frumvarpið ekki komið fram þegar fjárlög voru lögð fram og munum við taka það inn í fjárlagagerðina núna í haust.

Ég vil líka vekja athygli á því að talað er um í kostnaðarmati fjármálaráðuneytisins að gert sé ráð fyrir að útgjöld ríkissjóðs muni aukast um 13,8 milljónir verði frumvarpið óbreytt að lögum en þar af verði 9,3 milljóna einskiptiskostnaður vegna skráningar, flokkunar og skönnunar eldri gagna sem færast frá sýslumönnum. Það er kostnaður sem þarf ekki allur að falla til á einu ári og hægt er að vinna með þetta þannig að það gerist á lengri tíma.

Ég vil einnig geta þess að af því að þessi skráning er þannig að hún getur farið fram hvar sem er á landinu væri það vissulega möguleiki í stöðunni að færa þá skráningarvinnu til embætta úti um landið.