143. löggjafarþing — 14. fundur,  1. nóv. 2013.

þingsköp Alþingis.

69. mál
[11:42]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Það er sannur unaður að hlusta á réttlætingar þingmannsins, hann gerir þetta alveg ofboðslega vel, hann kann að færa rök fyrir máli sínu. Í fyrsta lagi segir hann að það sé eðlilegra að gera breytingar í sambandi við stjórnarskrána, bendir þá á að það sé nú ekkert mikilvægt að gera þetta, það er betra að gera breytingar á stjórnarskránni.

Í öðru lagi bendir hann á að þetta sé í raun bara táknrænt, þetta sé ekki praktískt, það muni ekki skila miklu, og heldur svo áfram og bendir á að þetta sé í rauninni verra fyrir þingminnihlutann því að þá fjölgi atvinnustjórnmálamönnum sem meiri hlutinn hefur þó.

Ég vil þá bara segja að ég hef engar áhyggjur af því þótt atvinnustjórnmálamönnum fjölgi hjá meiri hlutanum.

Svo er talað um að þetta sé ekki hættulegt og ekki alvarlegt og vegur ekki að stjórnskipan Íslands með alvarlegum hætti. Nei, þetta vegur náttúrlega ekkert að stjórnskipan Íslands, punktur. Það þarf ekki að segja „með alvarlegum hætti“, þetta vegur bara ekkert að stjórnskipan Íslands og skilar ekki í rauninni meiri velmegun, ef við lítum í kringum okkur, þar sem — (Gripið fram í: Betri árangri.) já, betri árangri eða velmegun í ríkinu þannig að það er mjög vel uppsett hjá þingmanninum hvernig hann tekur saman alla þessa hluti. Þetta skiptir í rauninni ekki máli, það ætti bara að gera þetta í stjórnarskrá og þá er spurningin: Eigum við þá ekki bara að setja þetta í stjórnarskrá? Byrjum á þessu, klárum þetta, gerum þetta táknrænt, sýnum hver vilji okkar er, hvert hann liggur og svo förum við í vinnuna við að setja þetta í stjórnarskrá.

Hvað segir þingmaðurinn um það, hv. þm. Birgir Ármannsson? Ég mundi vilja heyra það.