143. löggjafarþing — 14. fundur,  1. nóv. 2013.

þingsköp Alþingis.

69. mál
[11:44]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er viðhorf mitt að þegar ráðist er í breytingar, hvort sem það er á þessu sviði eða öðru, þurfi menn að vera nokkuð vissir um að breytingin verði til bóta. Ég hef efasemdir um það, hv. þingmaður hefur það ekki, okkur greinir á um þessa þætti og um þetta verður auðvitað fjallað í nefnd og síðar hér í þinginu ef málið kemst aftur til þingsins. Hann hefur ekki áhyggjur af þáttum sem ég hef áhyggjur af og öfugt, við getum kannski talað okkur að niðurstöðu í þeim efnum. En ég held að við verðum að átta okkur á því að í litlu samfélagi getur praktískt séð skipt máli hversu margir það eru fyrir hönd mismunandi flokka stjórnar eða stjórnarandstöðu sem geta beitt kröftum sínum að fullu í pólitíska baráttu.

Það sem ég bendi á hér er það praktíska vandamál að misvægið milli stjórnar og stjórnarandstöðu mun augljóslega aukast ef þessi breyting nær fram að ganga og því tefli ég fram sem andstæðunni við það að ég hef ekki mikla trú á því að frumvarpið muni ná þeim tilgangi að auka raunverulegan aðskilnað þátta ríkisvaldsins, framkvæmdarvalds og löggjafarvalds. Þó að við deilum ekki um að táknrænt sé þetta kannski áferðarfallegra þá held ég að í raun og veru í hinum daglega pólitíska veruleika muni þetta ekki skipta miklu máli að því leyti.