143. löggjafarþing — 14. fundur,  1. nóv. 2013.

bætt ímynd Alþingis á samfélagsmiðlum.

119. mál
[12:02]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að fagna þessari þingsályktunartillögu sem hv. þm. Bjartrar framtíðar hafa flutt um aukinn sýnileika og bætta ímynd Alþingis á samfélagsmiðlum. Það er enginn vafi á því að mjög tímabært er fyrir Alþingi að hyggja að því hvernig við getum tekið næsta skref í þá áttina að reyna að opna aðgengi almennings að því sem verið er að gera á Alþingi og gefa almenningi um leið kost á því að nýta þær miklu upplýsingar sem reiddar eru fram með öðrum hætti núna á vegum þingsins.

Þetta er líka mikilvægt fyrir okkur í sögulegu ljósi. Alþingi hefur oft og tíðum haft ákveðna forustu í þessum efnum þegar kemur að samanburði við önnur þjóðþing. Við sem sitjum í þingskapanefnd vorum að rifja upp í morgun að á sínum tíma var Alþingi með fyrstu þingum sem fóru að hljóðrita þingræður. Ég hygg að það hafi verið árið 1952 sem sérstök sendinefnd á vegum Alþingis fór til Hollywood til að kynna sér nýjustu tækni á því sviði í heiminum. Ég er í sjálfu sér ekki að leggja til að við förum nákvæmlega í þau spor núna og leggjum í ferðalag vestur um haf á vesturströnd Bandaríkjanna til að kynna okkur það nýjasta sem er að gerast á þessum sviðum. Það mætti hugsa sér að menn færu og heimsæktu Kísildalinn í því skyni. Ég er þó ekki að leggja það til að sinni að minnsta kosti. En það sem þarna gerðist var að við vorum í sumum tilvikum áratugum á undan öðrum þjóðþingum í þeim efnum.

Alþingi hafði líka, að mínu mati, ákveðið forskot á sínum tíma með uppbyggingu vefjarins althingi.is sem, eins og kemur fram í greinargerð með þingsályktunartillögunni, er hafsjór af fróðleik. Það getur þó stundum verið erfitt fyrir ýmsa sem ekki þekkja vel til að nálgast þessar upplýsingar, kannski vegna eðlis þeirra fremur en uppbyggingu vefjarins. Það er hins vegar hlutur sem er líka nauðsynlegt fyrir okkur að fara að endurskoða, hvernig við getum gert upplýsingarnar eins aðgengilegar fyrir almenning og kostur er. Markmiðið með því að starfrækja heimasíðu þingsins er meðal annars að auðvelda almenningi aðgang að þessum miklu upplýsingum, fara yfir ræður, kynna sér mál, aðgengi að lagasafni o.s.frv. sem er hreinlega vinnutæki mjög margra, svo dæmi sé tekið, sem ekki starfa hér á Alþingi.

Síðan er það auðvitað hitt sem er meginefni þingsályktunartillögunnar, að við förum líka að taka þátt í annars konar samfélagsmiðlum hvort sem það er Facebook, YouTube, Google, Flickr eða Twitter og ef ég héldi ræðu mína eftir svona ár þyrfti ég örugglega að bæta við nokkrum öðrum slíkum formum.

Ég hef aðeins skoðað þetta í öðrum þingum og önnur þing hafa verið að taka þetta upp, svo sem með Facebook. Ég veit að til dæmis danska þingið hefur gert slíkt. Þar sá ég áhugavert myndskeið nánast af þátttöku þingforsetans í daglegum störfum. Breska þingið hefur eitthvað álíka og þarna þurfum við bara að feta þá slóð. Það er þó að ýmsu að hyggja og það sem fyrst og fremst kemur upp sem spurning er hvað það er sem við viljum að rati inn á þessa vefi. Hvað er það nákvæmlega? Það gæti verið mikil freisting fyrir forseta sem hefur gaman af að líta í eigin barm að láta mjög til sín taka og á sér bera á slíkum miðlum. Þetta þarf auðvitað fyrst og fremst að endurspegla það sem þingið er að gera í breiðum skilningi þess orðs. Það getur líka verið eins og í breska þinginu þar sem menn endurvarpa í gegnum þessa miðla völdum köflum og áhugaverðum umræðum. Það þyrfti að sjálfsögðu að vera nokkuð ákveðin ritstjórn í þeim efnum. Þar eru menn með það sem þeir kalla fyrirspurnir til forsætisráðherra, „Prime Minister's Question Time“, sem er líka stundum birt brot úr þannig að möguleikarnir eru nánast ótæmandi. Það sem við þurfum aðallega að gæta að er að þetta sé í einhverju jafnvægi svo það verði ekki einhvers konar tæki pólitísks meiri hluta hverju sinni. Þá verðum við auðvitað einkum að leggja traust okkar á þingforseta og forsætisnefnd um að hafa yfirumsjón með því svo að við séum fyrst og fremst að varpa upp mynd af því sem Alþingi er að gera, bæði hér í þingsalnum og í nefndum, og með öðrum hætti hvernig þingið starfar.

Ég hef skilið þingsályktunartillöguna og greinargerðina sem henni fylgir sem áréttingu á því sjónarmiði og ég hygg að meðal þingmanna sé prýðileg samstaða um þessa viðleitni. Ég vil því árétta það að sem þingforseti á þessum tíma tel ég skynsamlegast fyrir okkur að fara að stíga þessi skref og fagna þeirri þingsályktunartillögu sem hér liggur fyrir.