143. löggjafarþing — 14. fundur,  1. nóv. 2013.

mat á umhverfisáhrifum.

120. mál
[12:13]
Horfa

Flm. (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir stuttu frumvarpi um breytingu á lögum nr. 106/2000, um mat á umhverfisáhrifum. Frumvarpið er í tveimur greinum. 1. gr. er efnisgrein frumvarpsins. Hún snýst um að breyta tveimur atriðum í 1. mgr. 12. gr. gildandi laga og ég ætla að fara yfir þessi tvö atriði hér.

Annars vegar er lagt til að í stað þess að miðað sé við að tíu ár líði frá því að Skipulagsstofnun veitir álit um mat á umhverfisáhrifum vegna framkvæmda verði fresturinn sjö ár. Fresturinn sem leyfisveitandi hefur er tíu ár og ef þau eru liðin á hann sem sagt að óska ákvörðunar Skipulagsstofnunar um hvort endurskoða þurfi að hluta eða í heild matsskýrslu framkvæmdaraðila áður en leyfi til framkvæmda er veitt. Hins vegar er bætt við nýrri setningu sem snýst um það að frjáls félagasamtök á sviði umhverfismála geti óskað eftir slíkri endurskoðun, þ.e. að það sé ekki eingöngu leyfisveitandi sem geti það heldur líka frjáls félagasamtök, og vísað til ákvæða Árósasamningsins í þeim efnum.

Svo að ég skýri þessi tvö atriði í 1. gr. nánar þá snýst, eins og ég sagði, þessi tíu ára frestur sem gefinn er í raun og veru um tímann sem líður frá því að mat á umhverfisáhrifum er framkvæmt þar til framkvæmd hefst. Fresturinn á eingöngu við sömu framkvæmd. Ef framkvæmdinni er breytt í veigamiklum atriðum er að sjálfsögðu farið með hana sem nýja framkvæmd. Þau skilyrði sem eru sett fyrir slíkri endurskoðun í gildandi lögum eru að framkvæmdir hafi ekki hafist innan tíu ára frá því að álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum lá fyrir. Þá ber sem sagt leyfisveitanda, sem tekur afstöðu til matsskýrslu framkvæmdarinnar og álits Skipulagsstofnunar, að óska eftir ákvörðun Skipulagsstofnunar um hvort endurskoða þurfi matsskýrsluna í heild eða að hluta ef umsókn til framkvæmda hefur verið lögð fram. Hér getur verið um að ræða sveitarstjórn eða leyfisveitanda samkvæmt sérlögum sem gilda um viðkomandi framkvæmd. Við getum nefnt til að mynda orkufyrirtæki ef um væri að ræða virkjunarframkvæmd.

Það sem frumvarpið felur í sér, ef það verður að lögum, er að þessi tími styttist um þrjú ár þannig að fresturinn verður sjö ár í stað tíu. Ástæðan fyrir því og rökstuðningurinn er sá að tíu ár eru langur tími ef við horfum til þess að þarna er í raun og veru verið að veita mat á umhverfisáhrifum. Tíu ár eru ansi langur tími án þess að framkvæmd hefjist að eiga inni þann möguleika að endurskoða þetta mat. Það geta auðvitað átt sér stað miklar breytingar á þeim tíma. Það má til að mynda nefna nýjar rannsóknir, nýja þekkingu. Það má nefna breytingar á náttúrufari sem geta orðið örar, landnotkun sem getur hafa breyst á viðkomandi svæði, áhrif manna á áhrifasvæði framkvæmda. Það má líka nefna breytingar á löggjöf, nýjar alþjóðlegar skuldbindingar o.fl. Við sem höfum fylgst með umræðu um umhverfismál og um stórframkvæmdir vitum auðvitað líka að viðhorfin breytast mikið á þessum tíma. Landsvæði sem einhvern tíma hefur þótt lítils virði getur hreinlega breyst, ekki af því að landsvæðið sjálft breytist heldur af því að viðhorf almennings breytist. Ferðamannastaðir geta orðið til á svæðum sem engum datt í hug að heimsækja. Því tel ég eðlilegt að þessi tími styttist.

Ég er ekkert endilega að segja með þessu frumvarpi að sjö ár sé eini rétti tíminn. Ég vænti þess að hv. umhverfis- og samgöngunefnd, sem væntanlega fær þetta frumvarp til meðhöndlunar, fari yfir það í málsmeðferð sinni. Hugsunin er sú að við horfum a.m.k. til þess að stytta þennan tíma, þetta tíu ára tímabil. Þetta hefur verið talsvert til umræðu upp á síðkastið vegna nýrra framkvæmda og við sjáum það hreinlega á þeirri umræðu að mjög margt getur breyst á þetta löngum tíma.

Þetta er kannski ekki stærsta efnisbreytingin heldur er í raun og veru verið að leggja til að aðlaga lög um mat á umhverfisáhrifum að breyttum tímum, eftir því sem ég tel a.m.k. Síðan er lögð til sú efnisbreyting að frjálsum félagasamtökum á sviði umhverfismála verði veitt heimild til að óska eftir endurskoðun á umhverfismati í samræmi við ákvæði Árósasamningsins. Eins og við þekkjum hér á þingi er Ísland aðili að Árósasamningnum. Í raun má segja að í honum tengist umhverfismál og mannréttindi þar sem hann byggir á þeirri hugsun að verndun umhverfisins sé nauðsynleg fyrir velferð mannsins, að þetta séu samhangandi þættir, að það sé mikilvægt fyrir grundvallarréttindi mannsins að við verndum umhverfið því að sérhver kynslóð eigi rétt á því að lifa í umhverfi sem sé fullnægjandi fyrir heilsu og velferð fólks, þess vegna beri öllum skylda til að vernda og bæta umhverfið til hagsbóta fyrir núlifandi og komandi kynslóðir. Þessi hugsun, þessi tenging umhverfisverndar við mannréttindi, er augljós þegar við horfum til að mynda á stærsta viðfangsefni okkar tíma sem eru loftslagsbreytingar og hvaða áhrif þær hafa á hagsmuni og lifnaðarhætti fólks um heim allan. Þegar við horfum bara á það hvernig umhverfisbreytingar víða um heim breyta lífsskilyrðum fjölda fólks þá er þessi tenging gjörsamlega augljós. Þetta er auðvitað víðfeðm tenging en á grunni þessarar tengingar leggur samningurinn skyldur á ríki sem eru aðilar að Árósasamningnum, þar á meðal Ísland, að tryggja almenningi ákveðin réttindi þannig að almenningur geti haft áhrif á þær ákvarðanir sem snerta umhverfið.

Þau réttindi sem þau ríki sem eru aðilar að Árósasamingnum eiga að tryggja almenningi eru þríþætt og mynda þrjár stoðir. Fyrsta stoðin mælir fyrir um skyldur ríkja til að tryggja að almenningur hafi aðgang að upplýsingum um umhverfismál. Grunnurinn að því að hafa áhrif er auðvitað að hafa aðgang að réttum upplýsingum. Önnur stoðin skyldar ríkin sem eru aðilar til að tryggja almenningi rétt til þátttöku í undirbúningi að ákvörðunum sem snerta umhverfið. Þriðja stoðin snýr svo að skyldu ríkja til að tryggja almenningi réttláta málsmeðferð í málum sem varða umhverfið. Það má segja að þessi ákvæði samningsins, þessar þrjár stoðir, feli í sér ákveðnar lágmarksreglur. Ákvæðin eru almenns eðlis að mörgu leyti og síðan er hverju ríki í raun og veru falið að innleiða samninginn í lagaumhverfi sitt, það á ekki síst við um þriðju stoðina.

Það sem ég er í raun og veru að leggja til með þessu frumvarpi, með tilvísan til Árósasamningsins og með tilvísan til þess að mikilvægt er að fleirum sé veittur aðgangur að ákvarðanatöku um framkvæmdir sem ráðist er í og snúa að þeim en ekki eingöngu leyfisveitandanum eins og er í gildandi lögum, er að frjáls félagasamtök fái þarna aðgang og geti óskað eftir endurskoðun á matsskýrslu innan sjö ára. Sýn mín er sú að frjáls félagasamtök geti þarna gegnt mikilvægu hlutverki fyrir hönd almennings því að allir geta átt aðild að frjálsum félagasamtökum og þannig geti þau í raun og veru orðið á einhvern hátt málsvari almennings ef sú skoðun er uppi að eðlilegt sé að fara í slíka endurskoðun og mönnum þykir leyfisveitandi ekki taka tillit til þess. Að sjálfsögðu snýst þetta fyrst og fremst um ósk en heimildin gefur þessum samtökum virka leið til að taka þátt í ákvarðanatökuferlinu.

Ég lít því svo á að við séum með þessu frumvarpi, verði það að lögum, að færa í lög þá hugsun sem við erum þegar búin að undirgangast með því að gerast aðilar að Árósasamningnum, þá hugsun að það sé eðlilegra að fleiri komi að ákvarðanatöku í mikilvægum málum sem snerta umhverfið með þeim rökstuðningi að sjálfsögðu að þau séu velferðarmál fyrir almenning í landinu. Hugsunin er að þetta sé eigi að síður afmarkað með einhverjum hætti og það séu þá frjáls félagasamtök á sviði umhverfismála sem gegni því hlutverki að geta verið málsvari almennings, ef svo má að orði komast, í slíkum málum.

Ég vonast til þess að þegar hv. umhverfis- og samgöngunefnd skoðar þetta mál afgreiði hún það með jákvæðum hætti. Ég lít svo á að með þessu séum við, í ljósi þess að lagt er til að stytta tímafrestinn, að færa lagaumhverfið aðeins fram á við í takt við tímann því að það er komin reynsla á gildandi lög. Eins og ég nefndi hér áðan geta mjög margir þættir orðið til þess að breyta aðstæðum og því er mikilvægt að við horfum til þess að stytta þennan tíma eitthvað. Í öðru lagi tel ég að við værum að ganga fram og halda áfram því verki að lögfesta Árósasamninginn en eins og ég hef þegar sagt hafa ríkin sem eru aðilar að Árósasamningnum ákveðið frjálsræði í því hvernig hann er innleiddur. Ég tel að með þessum hætti gætum við stigið mjög mikilvægt skref í því að tryggja almenningi þátttöku í þeim ákvörðunum sem varða okkur öll.

Virðulegi forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umræðu fari málið til hv. umhverfis- og samgöngunefndar og vonast að sjálfsögðu til að það fái mikla og góða umfjöllun í þinginu í framhaldinu.