143. löggjafarþing — 14. fundur,  1. nóv. 2013.

atvinnulýðræði.

121. mál
[12:24]
Horfa

Flm. (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar sem flutt er af þeirri sem hér stendur og öllum þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að kjósa níu manna nefnd hlutfallskosningu sem hafi það hlutverk að gera tillögur um fyrirkomulag atvinnulýðræðis á vinnustöðum og meðal nemenda í skólum hér á landi. Nefndin kanni sérstaklega að hve miklu leyti verði sett lög um verkefnið og að hve miklu leyti verði tekið á málinu milli aðila vinnumarkaðarins með kjarasamningum.

Tilgangurinn með því að koma á atvinnulýðræði felst í því að auka áhrif starfsfólks á vinnustöðum, hvort sem um er að ræða einkafyrirtæki eða fyrirtæki í félagslegri eigu, svo sem ríkis eða sveitarfélaga.

Nefndin njóti aðstoðar ráðuneyta eftir því sem þurfa þykir. Nefndin skal hafa skipulegt samstarf við aðila vinnumarkaðarins og kalla fram tillögur þeirra og álit eftir þörfum og ástæðum.“

Virðulegur forseti. Þessi þingsályktunartillaga á sér töluvert langa og mikla forsögu í þinginu og má segja að tilefni þess að málefnið er tekið upp hér á þessum tímapunkti sé að orðið hefur mikil vakning að því er varðar umfjöllun um lýðræðismál almennt og sú umræða náði ákveðnu hámarki í tíð síðustu ríkisstjórnar með þjóðfundi, stjórnlagaráði og frumvarpi til laga um breytingar á stjórnarskránni. Í þeirri umræðu var aðallega fjallað um þjóðfélagsrammann um lýðræði, um kosningar til Alþingis og sveitarstjórna og um þingræðið sjálft, hlutverk þess og stöðu og er sú umræða auðvitað síkvik og vakandi, en hér er gerð tilraun til þess að koma á dagskrá umræðu um lýðræði á vinnustöðum. Það er gert ráð fyrir því samkvæmt þessari tillögu að verkið verði unnið í nánu samráði við aðila vinnumarkaðarins og nefndinni er ætlað að taka sérstaklega til umfjöllunar að hve miklu leyti málið verður til lykta leitt með lagasetningu og að hve miklu leyti með kjarasamningum. Reyndar verður að ætla að fyrirkomulag atvinnulýðræðis ráðist af hvoru tveggja, bæði lögum og samningum milli atvinnurekenda og launamanna á hverjum tíma.

Aðeins varðandi sögu málsins eða forsögu þess í þinginu. Það má rekja hana allt aftur til ársins 1965, eða hartnær hálfa öld, þar sem tillaga til þingsályktunar um atvinnulýðræði var fyrst flutt hér á 85. löggjafarþingi vorið 1965, fyrir tæpum 50 árum, af Ragnari Arnalds sem þá var þingmaður Alþýðubandalagsins. Tillagan náði ekki fram að ganga frekar en aðrar þær sem síðar komu um svipað eða sama efni og Ragnar endurflutti hana um haustið sama ár og einnig árið 1968 á 89. löggjafarþingi. Jónas Árnason, þingmaður Alþýðubandalags, flutti svipaða tillögu á 91. löggjafarþingi og þingflokkur Alþýðuflokksins flutti síðan þingsályktunartillögu um atvinnulýðræði á 93. löggjafarþingi og á því 98. fluttu þrír þingmenn flokksins frumvarp til laga um atvinnulýðræði. Sighvatur Björgvinsson og aðrir þingmenn Alþýðuflokksins fluttu þetta frumvarp að nýju, nokkuð breytt til samræmis við ákvæði nýrra hlutafélagalaga, á 105. löggjafarþingi árið 1982, en svo má segja að umræða um þessi mál hafi legið niðri í þinginu í 15 ár eða allt til ársins 1997 þegar Ágúst Einarsson og aðrir félagar í þingflokki jafnaðarmanna fluttu frumvarp til laga um breytingu á hlutafélagalögum sem miðaði að því að koma á atvinnulýðræði í hlutafélögum sem væru skráð á Verðbréfaþingi Íslands. Ágúst og 14 aðrir þingmenn vinstri flokkanna á Alþingi fluttu svo á 122. löggjafarþingi frumvarp til laga um breytingu á hlutafélagalögum sem fól í sér rétt starfsmanna til að kjósa fulltrúa í stjórn samkvæmt ákveðnum reglum. Ágúst og tveir aðrir þingmenn Samfylkingarinnar endurfluttu það árið 2000 og Jóhanna Sigurðardóttir, ásamt fleiri þingmönnum Samfylkingarinnar, flutti árið 2003 tillögu til þingsályktunar um atvinnulýðræði sem átti rót sína að rekja til þess frumvarps sem hér var nefnt.

Virðulegur forseti. Það má því segja að um sé að ræða allnokkuð langa sögu og greinilega baráttumál vinstri afla á Alþingi. Auk þeirra þingmála sem hér er getið hafa auðvitað ýmis önnur mál sem miðuðu að því að auka þátt starfsmanna í ákvarðanatöku í þágu lýðræðis á vettvangi atvinnustarfsemi komið til umfjöllunar Alþingis á ýmsum tímapunktum á þessari hálfu öld eða svo en alltaf fyrir tilverknað fulltrúa vinstri flokka. En þrátt fyrir að oft hafi verið reynt að móta og setja reglur um framkvæmd atvinnulýðræðis á Íslandi hefur það enn sem komið er borið takmarkaðan árangur. Atvinnulýðræði hefur þó skipað veglegan sess í mótun vinnumarkaðar í nágrannalöndum okkar síðustu hálfa öldina og þykir sjálfsagður og eðlilegur hluti vinnumarkaðarins og þessa málaflokks. Íslenskur vinnumarkaður verður því að teljast frumstæður hvað þetta varðar í þessu samhengi Norðurlandanna og það er full ástæða til að við gerum úrbætur í þeim efnum á þessum mikilvæga vettvangi.

Það er rétt að geta þess í umræðunni að það hafa auðvitað verið stigin ýmis skref í átt til atvinnulýðræðis og þá alltaf í tíð vinstri stjórna. Það gerðist með því að fulltrúar starfsmanna fengu sæti í stjórnum menningarstofnana eins og Þjóðleikhússins og Ríkisútvarpsins og með því að fulltrúar starfsmanna og nemenda fengu sæti í stjórnum framhaldsskólanna. Það má auk þess nefna í því sambandi ákvæði laga um Ríkisútvarpið frá því í mars 2013, fjölmiðil í almannaþágu, laga um framhaldsskóla, laga um grunnskóla, laga um Þjóðskjalasafn Íslands, leiklistarlög og fleiri.

Einnig verður að hafa í huga í því sambandi að samvinnufélögin sköpuðu möguleika á áhrifum viðskiptamanna á rekstur fyrirtækjanna á sínum tíma. Það átti til dæmis við um neytendur í þéttbýlinu og viðskiptamenn, eins og bændur í dreifbýlinu. Með hruni samvinnuhreyfingarinnar var allt þetta kerfi lagt niður og þar með þau spor og þó einkum sú hugmyndafræði lýðræðis sem samvinnuhreyfingin byggði á til að byrja með.

Hugtakið „atvinnulýðræði“ merkir í raun leiðir til að auka áhrif starfsmanna innan fyrirtækja. Þær þingsályktunartillögur og þau frumvörp sem hingað til hafa verið flutt hafa alltaf miðað að þessu, en með nokkuð mismunandi hætti.

Ég ætla í þessari framsögu minni að rekja efni fyrstu tillagnanna sem voru fluttar í öndverðu þessarar umræðu, sem er tillaga Ragnar Arnalds frá árinu 1965 en hún var svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela 11 manna nefnd að undirbúa löggjöf um aukin áhrif verkamanna og annarra launþega á stjórn þeirra fyrirtækja, sem þeir starfa hjá. Skal löggjöf þessi vera fyrsti áfanginn í áætlun til næstu tveggja áratuga um aukið lýðræði í íslenzkum atvinnuvegum, og ber sérstaklega að stefna að því í fyrstu lotu að veita launþegum ríkisfyrirtækja og þá einkum iðnfyrirtækja veruleg bein áhrif á stjórn þeirra, en starfsmönnum í einkarekstri víðtæk ráðgefandi áhrif.“

Í greinargerð með þessari tillögu Ragnars á sínum tíma segir:

„Lýðræði í atvinnulífinu er í því fólgið, að launþegar, verkamenn og aðrir starfsmenn, stjórna atvinnurekstrinum.“

Þá reifaði Ragnar merkingu hugtakanna „pólitískt lýðræði“, þ.e. prentfrelsi, málfrelsi, félagafrelsi, almennan kosningarrétt og jafnrétti kynjanna, „menningarlegt lýðræði“, þ.e. jafna aðstöðu í uppeldis- og menntamálum án tillits til uppruna eða aðstæðna og jöfn skilyrði til að njóta gæða menningarlífsins og „efnahagslegt lýðræði“, en það merkir annars vegar að lífskjör manna og fjárhagsleg afkoma sé sem jöfnust og að þeir búi við fjárhagslegt jafnrétti og hins vegar jafnrétti manna til að hafa áhrif á stjórn efnahagslífsins.

Um þetta síðasta atriði segir í greinargerð Ragnars, með leyfi forseta:

„Með því er reynt að koma í veg fyrir einokun fárra manna á efnahagslífi viðkomandi þjóðar, enda er fjárhagslegt misrétti óhjákvæmileg afleiðing af slíkri einokun. Vald fárra manna yfir efnahagslífinu í krafti fjármagnsins hefur aftur á móti í för með sér vald þeirra á atvinnulífinu. Efnahagslegt lýðræði er því öðrum þræði náskylt atvinnulýðræði. Munurinn er sá, að hið fyrra beinist að efnahags- og atvinnulífinu í heild sinni, en atvinnulýðræði er fyrst og fremst bundið við vinnustaðinn, fyrirkomulag rekstrarins á hverjum stað.“

Nokkrum árum síðar var lögð fram þingsályktunartillaga af Jónasi Árnasyni, sem var þá þingmaður Alþýðubandalagsins, um atvinnulýðræði, en í henni segir:

„Alþingi ályktar að fela 13 manna nefnd að undirbúa löggjöf um aukin áhrif verkamanna og annarra launþega á stjórn þeirra fyrirtækja, sem þeir starfa hjá. Ber sérstaklega að stefna að því í fyrstu lotu að veita launþegum ríkisfyrirtækja og þá einkum iðnfyrirtækja veruleg bein áhrif á stjórn þeirra, en starfsmönnum í einkarekstri víðtæk ráðgefandi áhrif.“

Þetta er því að mörgu leyti samhljóða tillögu Ragnars.

Síðan er hér rakin nokkuð ítarlega í greinargerð framvinda málsins í þinginu, þ.e. eðli og innihald þeirra tillagna sem fram koma á þessu langa 50 ára tímabili. Staða málsins núna er í raun og veru sú að um þetta mál, þ.e. atvinnulýðræði sem slíkt, hefur ekki verið fjallað á Alþingi síðan í þingsályktunartillögu á 130. löggjafarþingi haustið 2003.

Virðulegur forseti. Ég tel að ég hafi gert nokkuð grein fyrir innihaldi tillögunnar og vænti þess auðvitað að hún fái góða og efnislega umfjöllun í nefnd. Ætli það sé ekki réttast að hún rati til velferðarnefndar að lokinni þessari umræðu og ég vona að hún fái þar jákvæða og uppbyggilega umfjöllun.