143. löggjafarþing — 14. fundur,  1. nóv. 2013.

landsnet ferðaleiða.

122. mál
[12:42]
Horfa

Flm. (Róbert Marshall) (Bf):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um landsnet ferðaleiða. Hún hljóðar á þá leið að Alþingi ályktar að fela innanríkisráðherra, iðnaðar- og viðskiptaráðherra og umhverfis- og auðlindaráðherra að hefja nú þegar í sameiningu vinnu við skipulagningu og kortlagningu leiða og þjónustukerfis fyrir ferðamenn sem ferðast um landið fótgangandi, á reiðhjólum eða á hestum þannig að til verði eitt samtengt landsnet ferðaleiða. Einnig verði lagt mat á hvort þarft sé að skipuleggja og kortleggja ferðaleiðir fyrir fólk á sjókajökum eða gönguskíðum og fella slíkar ferðaleiðir inn í landsnet ferðaleiða sé talin þörf á því. Ráðherrarnir ljúki vinnunni eigi síðan en 1. janúar árið 2017.

Tillagan er ákall eftir víðtæku samstarfi og skýrri stefnumörkun stjórnvalda er varðar ferðamenn sem ferðast um Ísland fótgangandi, á reiðhjólum eða á hestum. Markmið tillögunnar er að stuðla að því að hið fyrsta verði ráðist í skilgreiningu og skipulagningu ferðaleiða, samræmingu fyrirkomulags merkinga, afmörkun og skilgreiningu heita á leiðum og gerð númerakerfis fyrir allt landið. Að mati flutningsmanna er nauðsynlegt að unnið verði hratt að verkefninu svo fljótlega verði mögulegt að koma til móts við ört vaxandi straum ferðamanna, innlendra sem erlendra, með viðunandi hætti. Áríðandi er að nægilegt fjármagn og mannafli verði lagður til verkefnisins. Enn fremur ætti að kanna sérstaklega hvort ferðaleiðir fyrir fólk á sjókajökum og gönguskíðum eigi erindi í slíka kortlagningu. Við þá könnun ætti helst að líta til áætlaðs umfangs slíkrar ferðamennsku og mögulegs vaxtar hennar á komandi árum.

Vegna undirbúnings verkefnisins er fyrirsjáanlegt að hafa þurfi öflugt samstarf við fulltrúa Sambands íslenskra sveitarfélaga, Vegagerðarinnar, Ferðamálastofu, Samtaka ferðaþjónustunnar, Landssamtaka hjólreiðamanna, Ungmennafélags Íslands, Landssamtaka hestamannafélaga, Ferðafélags Íslands, Ferðafélagsins Útivistar, Kayakklúbbsins, gönguskíðafélaga, landlæknisembættis, Slysavarnafélagsins Landsbjargar og Vatnajökulsþjóðgarðs, svo einhverjir séu nefndir.

Eðlilegt er að hluti af vinnunni við verkefnið felist í skilgreiningu og merkingu hjólaleiða um landið sem sótt getur fyrirmynd sína til EuroVelo-verkefnisins á meginlandi Evrópu. EuroVelo-verkefnið er rekið af samtökum evrópskra hjólreiðamanna, European Cyclists' Federation. Markmið þess er að skapa og þróa samtengt net hjólaleiða um alla Evrópu sem nýtist til skemmri sem lengri hjólreiðaferða. Nú um stundir falla 14 skilgreindar leiðir undir EuroVelo-verkefnið og sjá forsvarsmenn þess fram á að leiðanetið verði fullmótað árið 2020. Lengdir leiðanna eru mismunandi, allt frá 1.300 km til 9.000 km, en samanlagt nema þær yfir 70.000 km. Þær liggja m.a. frá Norður-Noregi til Suður-Ítalíu, frá Norður-Finnlandi til Ungverjalands og Grikklands, frá vestasta hluta Frakklands til Rússlands, frá syðsta hluta Spánar til Grikklands og vestasta hluta Írlands til Moskvu. Til þess að hjólaleið sé viðurkennd af EuroVelo þarf hún að uppfylla ýmis skilyrði sem sett eru fram í reglum verkefnisins. Meðal þeirra skilyrða er að leið sé lengri en 1.000 km. Takist vel til við undirbúning og framkvæmd við landsnet ferðaleiða mætti hugsa sér að hluti þess yrði hluti EuroVelo-leiðar. Í því samhengi virðist t.d. upplagt að hefja leikinn á því að skipuleggja hjólaleið innan lands frá Seyðisfirði á Austurlandi að Flugstöð Leifs Eiríkssonar á Reykjanesi.

Fjölmargar þjóðir sem byggja afkomu sína m.a. á ferðaþjónustu hafa skipulagt ferðaleiðir með aðgengilegum hætti. Slíkri skipulagningu er þá yfirleitt ætlað að efla öryggi og aðgengi ferðamanna og stýra aðsókn þeirra. Til dæmis þykir skipulag ferðaleiða í Sviss til fyrirmyndar en þar er starfrækt samhæft leiðakerfi undir merkjum SchweizMobil.

Ljóst er að full þörf er á að setja mikinn kraft í vinnu við landsnet ferðaleiða. Gríðarleg aukning erlendra ferðamanna kallar á öflugara skipulag og betri þjónustu. Snaraukinn áhugi innan lands á gönguferðum og almennri útivist fellur vel að lýðheilsumarkmiðum. Því hlýtur að vera þjóðhagslega hagkvæmt að hlúa vel að möguleikum göngufólks. Mikill vöxtur er í hjólreiðum á heimsvísu og hér innan lands, hvort sem litið er til almennra ferðalaga eða fjallahjólamennsku virðast töluverð viðskiptaleg sóknarfæri vera í þeim geira. Gott skipulag reiðleiða getur skapað margvísleg tækifæri í ferðaþjónustu og aukið gæði þess geira ferðaþjónustunnar til muna. Nauðsynlegt er að þessir ólíku ferðamátar verði skipulagðir heildstætt með það fyrir augum að skilgreina sameiginlega hagsmuni og vinna að framgangi þeirra.