143. löggjafarþing — 15. fundur,  4. nóv. 2013.

viðræður við kröfuhafa og afnám gjaldeyrishafta.

[15:16]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir að sakna mín hér í síðasta fyrirspurnatíma. Það er ýmislegt sem er hins vegar ekki mjög skýrt í svari hæstv. forsætisráðherra. Hann sagði fyrir síðustu kosningar að leiðrétting skulda ætti að koma fram án tafar þó að leiðréttingunni væri ætlað að koma inn í efnahagskerfið á löngum tíma, hvað svo sem það nákvæmlega þýðir. En hann talar hér um að nást þurfi samstaða eða sammæli um aðferðafræðina, að væntingar þurfi að verða sambærilegar milli kröfuhafa og ríkisstjórnarinnar.

Þá ætla ég að spyrja hæstv. forsætisráðherra aftur: Hvernig á þetta ferli að eiga sér stað? Hvernig eiga menn að ná saman um viðhorfin? Hvernig hefur ríkisstjórnin séð þetta fyrir sér? Hver á að stíga fyrsta skrefið? Hver á að taka af skarið? Hver á að koma málunum áfram?

Hæstv. forsætisráðherra getur ekki slegið úr og í og gefið misvísandi svör frá einum degi til annars.