143. löggjafarþing — 15. fundur,  4. nóv. 2013.

bygging nýs Landspítala.

[15:21]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Það er rétt, sem kemur fram hjá hv. þingmanni, að allnokkur vinna liggur fyrir í þessu máli. Ég held að búið sé að eyða um 3 milljörðum í undirbúning að framkvæmdum við þetta verkefni. Ég vil vekja athygli þingheims á því að grundvallarbreyting varð í verkefninu á þessu ári, þ.e. lögin frá árinu 2010 gerðu ráð fyrir að þessar byggingar og framkvæmdir allar yrðu fjármagnaðar og unnar eftir einkaframkvæmd sem kölluð var samstarfsframkvæmd. Á liðnu vori var síðan gerð sú breyting á þeim lögum að stærsti og mesti þunginn í verkefninu var færður úr því að eiga möguleika á því að fara í einkaframkvæmd í það að verða opinber fjármögnun, þ.e. að þetta fari inn á fjárlög. Þá verður grundvallarbreyting á öllum áætlunum varðandi fjármögnun þeirra verkefna sem um ræðir.

Ég bendi enn fremur á að lögin sem samþykkt voru í vor tóku ekki gildi fyrr en 1. september síðastliðinn. Ekki hefur því gefist langur tími til að fara í gegnum allan þann pakka sem þetta mun hafa áhrif á hvað varðar fjármögnun verkefnisins. Ég nefni líka enn og aftur þau sjónarmið sem komu fram í kostnaðarumsögn fjármálaskrifstofu með frumvarpinu sem var samþykkt og tók gildi 1. september síðastliðinn.

Stefnan er sú að gera þær bætur á húsakosti Landspítalans sem til þarf, endurbyggja hluta húsnæðis, byggja nýtt húsnæði. Vinna við greiningu á þessu stendur yfir, ég er í ágætissamstarfi, eins og áður hefur komið fram, við byggingarnefnd nýja Landspítalans ohf. Of snemmt er að segja til um hvenær þeirri vinnu lýkur en að sjálfsögðu mun ég gera þinginu grein fyrir því þegar niðurstaða er komin út úr því.