143. löggjafarþing — 15. fundur,  4. nóv. 2013.

bygging nýs Landspítala.

[15:24]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég hef engan áhuga á því að draga fólk á asnaeyrum. Ég skal gefa því þau svör sem ég hef þegar þau liggja fyrir. Verkefnið er stórt. Þetta er stærsta fjárfesting ríkissjóðs sem nokkurn tíma ætti að vera ráðist í. Planið sem liggur fyrir er í gildandi lögum sem segir til um það að við ætlum að fara út í fjórar byggingar þarna. En ég bið þingheim að átta sig á því að öll þau áform sem negld voru inn í lögin, sem tóku gildi fyrir rúmum mánuði, eru algjörlega ófjármögnuð og passa hvergi inn í áætlanir ríkisins um ríkisfjármál. Maður getur bara ekkert smellt fingrum og sagt: Við byrjum á þessu á morgun eða hinn. Þetta er margra ára verkefni, ærið fjárfrekt, og kallar á mjög vandaðan og ítarlegan undirbúning.