143. löggjafarþing — 15. fundur,  4. nóv. 2013.

sjúkraflutningar á landsbyggðinni.

[15:27]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Þetta er eitt af þeim verkefnum sem kom upp á borð til mín í síðustu viku. Ég skal viðurkenna það að ég var illa undir það búinn. Staðreyndin er sú að í velferðarráðuneytinu á árinu 2011 var tekin ákvörðun um að fækka sjúkrabílum á landinu um níu, úr 77 í 68. Þessi fækkun kemur fram í umdæmunum, átti að ganga yfir á árinu 2011 en málið er skilst mér þannig vaxið að það á að vera búið að fullnusta það 1. janúar 2014.

Ég kann ekki almennilega skýringarnar á þessu öllu saman enn þá, er að setja mig inn í málið. Þau áform sem þarna birtast vekja mér allmikla furðu þegar við horfum upp á að leggja sjúkrabifreiðum sem hingað til hafa sinnt verkum sínum mjög vel á sama tíma og við erum að draga saman og höfum verið að skera niður í heilbrigðisþjónustu á undanförnum árum. Við eigum skýrslur og úttektir, m.a. frá Boston Consulting Group sem segir mjög skýrt og greinilega að í ljósi niðurskurðar í heilbrigðisþjónustu vítt um land beri okkur að styrkja sjúkraflutninga á móti. Í mínum huga ganga sumar tillögurnar þvert á þá áherslu og ég áskil mér allan rétt til að breyta hugsanlega þeirri ákvörðun sem þarna var tekin. Ég er að vinna í þessu máli til að skilja það til botns. Ég fæ þetta ekki almennilega til að ganga upp.

Svo ég svari fyrirspurninni beint þar sem spurt var hvort ég teldi að mikið væri um útköll sjúkrabifreiða að tilefnislausu, ég hef ekki orðið var við það og ætla mönnum ekki að vinna eins og svo sé.