143. löggjafarþing — 15. fundur,  4. nóv. 2013.

áætlanir um fækkun sjúkrabifreiða.

[15:32]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Ég ætla að bæta aðeins í vegna þess að spurning mín til hæstv. heilbrigðisráðherra er í svipuðum dúr og var verið að ræða hér áðan. Ég ætla þó strax í upphafi máls míns að leiðrétta eitt; ákvörðun um að fækka sjúkrabílum um níu á landsbyggðinni eins og birtist okkur í fréttum á laugardag og sunnudag var ekki tekin 2011. Sú ákvörðun hefur sennilega verið tekin í heilbrigðisráðuneytinu síðustu daga. Í fréttinni kemur fram að ráðuneytið geri einnig tillögu um hvar bílum skuli fækkað og virðist hún tilbúin í megindráttum.

Virðulegur forseti. Í öllum þessum gögnum er fyrst vitnað í vinnu sem hófst í heilbrigðisráðherratíð Guðlaugs Þórs Þórðarsonar þar sem nefnd skilaði skýrslu til þáverandi heilbrigðisráðherra. Síðan vann nýr hópur með þessi gögn sem kom svo í skýrslu frá Boston Consulting Group og þannig er verið að vinna með þessar tillögur. Það er ekki rétt að þeim hafi verið skilað 2011, hæstv. heilbrigðisráðherra getur ekki skýlt sér bak við það. Tillögurnar voru komnar fram en ráðuneytið hafði ekki gert þær að sínum.

Virðulegi forseti. Að mínu mati er ráðuneytið hér að gera tillögur um hvar skorið skuli niður. Það kemur fram í fréttinni. Það á að fækka hjá Heilbrigðisstofnun Vesturlands, það á að fækka bílum eins og hér hefur komið fram, bæði taka bílinn af Skagaströnd og Ólafsfirði, það á að fara á Sauðárkrók, það á að fækka hjá Heilbrigðisstofnun Þingeyinga en ekki hefur verið upplýst hvar eigi að gera það. Hið sama má segja um Austurland, núverandi ráðuneyti með núverandi ráðherra hefur tekið ákvörðun um að hrinda þessu í framkvæmd. Það er það alvarlega vegna þess að niðurskurðurinn sem hér á sér stað er á erfiðustu vetrarsvæðum sem til eru á landinu (Forseti hringir.) og þess vegna spyr ég hæstv. ráðherra beint út: (Forseti hringir.) Ætlar hann að láta þessi áform ganga fram á næstu dögum og mánuðum?