143. löggjafarþing — 15. fundur,  4. nóv. 2013.

ósk um fund í fjárlaganefnd.

[15:39]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Í 15. gr. laga um þingsköp Alþingis stendur að formanni nefndar sé skylt að boða til fundar ef ósk berist um það frá að minnsta kosti fjórðungi nefndarmanna og taka á dagskrá þau mál sem tilgreind eru. Einnig kemur þar fram að formaður skuli þá gefa viðhlítandi skýringar ef það dregst umfram þrjá virka daga að halda fund í nefndinni.

Í hv. fjárlaganefnd höfum við haldið nokkra fundi um málefni Íbúðalánasjóðs og samkvæmt dagskrá nefndarinnar átti að halda slíkan fund 11. nóvember, en eftir yfirlýsingar hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur, formanns fjárlaganefndar, við fréttastofuna Bloomberg um ríkisábyrgð á Íbúðalánasjóði fannst okkur þremur fulltrúum í fjárlaganefnd mikilvægt að halda fund og koma því á hreint hvert viðhorf hæstvirtra ráðherra væri til málsins, ráðherra fjármála, félags- og húsnæðismála, vegna þess að við höfum áhyggjur af því að standi yfirlýsingin órædd geti hún dregið dilk á eftir sér.

Nú vill svo til að formaður fjárlaganefndar hafnar þessari beiðni og ég bið forseta að fara yfir þingsköp með (Forseti hringir.) hv. þingmanni og sjá til þess að við þau sé staðið.