143. löggjafarþing — 15. fundur,  4. nóv. 2013.

framtíð rannsóknarsjóða og nýsköpunar.

[15:42]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Hér er til umræðu umhverfi Rannsóknasjóðs sem er mikilvægasti vísindasjóður landsins og úthlutar fjármagni til vísindarannsókna samkvæmt alþjóðlegu mati á gæðum verkefna. Sjóðurinn hefur notið þess að búa við pólitíska sátt árum saman enda hefur ríkt almennur skilningur á mikilvægi hans í samfélaginu öllu og þvert á stjórnmálaflokka. Almennt er skilningur á mikilvægi þess að efla hlutfall samkeppnissjóða við fjármögnun rannsókna í landinu og loks tókst á þessu ári að styrkja fjármögnun til Rannsóknasjóðs þegar 550 milljónum var bætt við þær 800 milljónir sem áður voru í sjóðnum sem var hluti af fjárfestingaráætlun fyrri ríkisstjórnar. Þannig var sjóðurinn kominn í sömu stöðu og hann var í fyrir hrun.

Í fjárlagafrumvarpi núverandi ríkisstjórnar er gert ráð fyrir því að þessi viðbótarfjármögnun verði dregin til baka þannig að engin ný verkefni fái í raun stuðning á árunum 2014 og 2015. Ef ekkert nýtt fjármagn fæst eru fjöldamargir rannsóknarhópar í hættu. Þetta bitnar helst á ungum vísindamönnum sem eru að hasla sér völl og geta ekki beðið í eitt eða tvö ár eftir að sjóðurinn rétti úr kútnum.

Í grein sem birtist í Fréttablaðinu á dögunum og er skrifuð af fjölda vísindamanna við Háskóla Íslands kemur fram að bandarísk samtök leiðtoga í viðskiptum og menntun hafi komist að þeirri niðurstöðu að 50% af hagvexti Bandaríkjanna eftir seinna stríð megi rekja beint til grunnrannsókna sem að stærstum hluta eru fjármagnaðar af opinberum rannsóknarsjóðum.

Finnar ákváðu í sínum þrengingum fyrir tveimur áratugum að leggja áherslu á menntun og grunnrannsóknir til að auka gæði grunnvísinda og auka nýsköpunarstarfsemi.

Hér hefur verið rætt um mikilvægi þess að auka nýsköpunarstarf með sama hætti. Rannsóknartengd nýsköpun er þar gríðarlega mikilvæg enda leiðir hún til verðmætasköpunar og atvinnu og þar með aukinna skatttekna. Á Íslandi hafa samkeppnissjóðir alltaf verið lítið hlutfall af framlagi hins opinbera til vísindastarfsemi, um 15%. Á Norðurlöndum er þessi tala 30–50% af framlagi hins opinbera til vísindastarfsemi.

Virðulegur forseti. Engin atvinnugrein þrífst til lengdar án rannsókna, nýsköpunar og stöðugrar þróunar; ekki sjávarútvegur, ekki landbúnaður, ekki iðnaður, ekkert. Það er að grípa um sig örvænting innan raða vísindafólks sem sér fram á minnkandi framlag í rannsóknarsjóðina næstu þrjú árin. Ungt fólk mun flýja land, okkar öflugustu framhaldsnemar og okkar öflugustu nýdoktorar. Það vantar von. Það vantar bjartsýni.

Neyðarástand má ekki vera viðvarandi. Þurfa rannsóknarnemar að hætta í miðju kafi? Rofnar samfellan í verkefnum sem hafa staðið með góðri framvindu í mörg ár? Hvernig má ná þeim á strik aftur? Hvernig á að tryggja að þar fari ekki gríðarlegir fjármunir í súginn? Viljum við ekki halda í okkar unga og vel menntaða fólk? Viljum við ekki njóta liðsinnis þeirra sem eru að ljúka námi erlendis við að þróa og þroska íslenskt samfélag inn í framtíðina?

Virðulegur forseti. Um helgina barst öllum þingmönnum ályktun 147 vísindamanna vegna frumvarps til fjárlaga sem nú er í meðförum þingsins. Þar er athyglinni meðal annars beint að því að um er að ræða fyrirhugaðan 30% niðurskurð á nýjum styrkveitingum, 30–40 ársverk ungra vísindamanna munu tapast, niðurskurður til Ranníss þýðir niðurskurð á bestu rannsóknunum. Margföldunaráhrif verða af tapi á mannauði, raunlækkun styrkja verður enn meiri en 30% og niðurskurðurinn gengur þvert á stefnumótun Vísinda- og tækniráðs sem hefur gert ráð fyrir eflingu samkeppnissjóða á Íslandi með það að markmiði að fjármögnun rannsóknarháskóla úr samkeppnissjóðum nái sama hlutfalli og að meðaltali í OECD árið 2016.

Loks segir í ályktuninni, með leyfi forseta:

„Við viljum að lokum árétta að fjárfesting í grunnrannsóknum er forsenda hagvaxtar vestrænna þjóða, þar sem þekkingarsköpun styður við verðmætasköpun sem byggir á hugviti. Keðjuverkandi áhrif af niðurskurði í samkeppnissjóði geta því orðið mikil.“

Virðulegur forseti. Þær spurningar sem ég lagði fyrir ráðherrann í aðdraganda þessarar umræðu eru þessar: Hver er framtíðarsýn ráðherrans varðandi rannsóknartengda nýsköpun á Íslandi? Hvert telur ráðherra að sé eðlilegt hlutfall samkeppnissjóða af framlagi hins opinbera til vísindastarfs? Hvernig hyggst ráðherra standa að því að treysta grunnrannsóknir í samfélaginu? Hver er framtíðarsýn ráðherrans varðandi Rannsóknasjóð, hlutverk hans og þróun? Og loks: Hvað telur ráðherra að sé ásættanlegt úthlutunarhlutfall úr samkeppnissjóðum?

Ég vona að þessi umræða varpi ljósi á stefnu ráðherrans og ríkisstjórnarinnar varðandi þessi mál. Útlitið er ekki bjart þar sem svo virðist sem til standi að troða á þeim sprotum sem verið er að sinna í þágu rannsóknar- og vísindastarfs um land allt. Ætlar ný ríkisstjórn virkilega að stela voninni frá öllu þessu fólki án þess að hafa nokkuð fram að færa í staðinn?