143. löggjafarþing — 15. fundur,  4. nóv. 2013.

framtíð rannsóknarsjóða og nýsköpunar.

[15:47]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir að efna til þessarar umræðu um framtíð rannsóknarsjóða og nýsköpunar. Ég er þeirrar skoðunar, og deili henni með mörgum, að grunnrannsóknir og nýsköpun skipti sköpum fyrir eflingu hagvaxtar og þekkingar í íslensku samfélagi og því má ljóst vera að framtíðarsýn mín og svo margra annarra er sú að standa vörð um og efla grunnrannsóknir og nýsköpun hér á landi í góðri samvinnu við önnur ráðuneyti og hagsmunaaðila á þessum vettvangi.

Það er einmitt á vettvangi Vísinda- og tækniráðs sem við vinnum best saman. Undanfarna mánuði hefur verið unnið að nýrri stefnu ráðsins til næstu þriggja ára og mun hún brátt líta dagsins ljós. Þar er meðal annars fjallað um þau atriði sem hér eru til umræðu, svo sem eflingu samkeppnissjóða og samvinnu stofnana með áherslu á innviði rannsóknar- og nýsköpunarkerfisins á Íslandi.

Enn fremur verður lögð áhersla á alþjóðleg gæðaviðmið og samkeppnishæfni. Vísinda- og tækniráð ítrekar mikilvægi þess, og það hefur komið fram, að íslenskir vísindamenn sæki um í alþjóðlega samkeppnissjóði og byggi þannig upp alþjóðlega rannsóknarhópa. Þar skiptir nýliðun verulega miklu máli.

Þetta er nú ramminn um hina almennu stefnu. Í dag er hlutfall samkeppnissjóða af framlagi til hins opinbera vísindastarfs um 15% og má segja að það sé frekar lágt. Í nágrannalöndum okkar er hlutfallið oft á bilinu 30–40%. Mikilvægt er að þegar fram í sækir muni þetta hlutfall hækka án þess að hægt sé að svara því nákvæmlega hvert það á að vera. Ég held að það sé erfitt fyrir stjórnmálamenn að nefna nákvæmar prósentutölur hér. Ég tel auðvitað bestu leiðina vera þá að treysta sem best grunnrannsóknir í samfélaginu og að það sé gert með því að standa vörð um rannsóknastofnanir og háskóla og framfylgja stefnu Vísinda- og tækniráðsins eftir því sem við verður komið. Auðvitað helst slík uppbygging alltaf í hendur við þá fjármuni sem við höfum til skiptanna hverju sinni.

Sú aukning sem var ákveðin á sínum tíma var á grundvelli svokallaðrar fjárfestingaráætlunar. Ég tel því rétt að rifja hér upp hvað sagt var í fjárlagafrumvarpinu 2013, með leyfi virðulegs forseta:

„Eftir sem áður byggist fjárfestingaráætlunin á því að ríkisfjármálaáætlunin verði í forgangi og að markmiði um jöfnuð í ríkisfjármálum árið 2014 verði ekki raskað.“

Svo heldur áfram:

„Þessir tilteknu fjárfestingarkostir eru því ekki innifaldir í fjárlagafrumvarpinu vegna þess að enn er óljóst hversu miklar tekjur munu renna til ríkisins vegna arðgreiðslna eða sölu eignarhluta á næstu árum.“

Með öðrum orðum lá fyrir í upphafi að ekki væri hægt að ráðast í alla þessa hluti nema tekjuforsendurnar stæðust. Það var áætlað að á næsta ári, 2014, yrði hallinn að óbreyttu um það bil 27 milljarðar, ef ég man rétt, og það er rétt að hafa það í huga þegar talað er um þetta mál og þá fjármuni sem við höfum til skiptanna.

Aftur á móti er það rangt sem hér var sagt að það hefði verið dregið úr fjárframlögum. Hið rétta er að það er staðið við stóran hluta af þeirri aukningu sem áætluð var og hleypur sú tala auðvitað á hundruðum milljóna. Það er aukning á milli ára. Ef við horfum til dæmis til ársins 2012 og skoðum sjóðinn þar er um að ræða aukningu.

Hvað varðar síðan árangurshlutfallið sem hv. þingmaður nefndi áðan hefur hlutfallið verið einhvers staðar á bilinu 14–30%.

Ég ætla að leyfa mér að renna yfir þá talnarunu, virðulegi forseti. Ég miða upphæðir við árangurshlutfallið; árið 2007 24,7%, 2008 31,6%, 2009 23,5%, 2010 18,5%, 2011 13,6%, 2012 17,1%, 2013 24,9%.

Það hefur verið nokkur sveifla í hlutfallinu. Það skiptir máli þegar talað er um að reyna að fá meiri festu í þessa þróun þannig að það séu ekki sveiflur upp eða niður. Ég held að það skipti máli hér en ég hefði auðvitað áhuga á að heyra frá hv. þingmanni og málshefjanda hvort hv. þingmaður hafi talið að það ætti að standa við það sem sagt var í frumvarpi til fjárlaga 2013, að það væri forsenda þess að hægt væri að ráðast í allar þær framkvæmdir og fjárfestingar sem um var talað sem voru gefnar, að hér yrði ekki raskað því markmiði að standa við hallalaus fjárlög 2014 og að fram gengju þær forsendur sem voru lagðar fram í upphafi, t.d. varðandi sölu ríkiseigna og arðgreiðslur. (Forseti hringir.)