143. löggjafarþing — 15. fundur,  4. nóv. 2013.

framtíð rannsóknarsjóða og nýsköpunar.

[16:02]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Ég bendi á að World Economic Forum um samkeppnishæfi ríkja gaf nýlega út skýrslu um það að samkeppnishæfi Íslands sé á nýsköpunarsviðinu. Það er þar sem okkar samkeppnishæfi liggur, til að skapa verðmæti. Með það til hliðsjónar mundi ég vilja spyrja: Hver er þessi niðurskurður? Er hann tímabundinn og þá hve lengi? Hvað á að skera mikið og hvenær á þá að gefa í aftur? Hvað kostar það, er búið að reikna hvað það kostar? Er verið að pissa í skóinn sinn? Þýðir það að mikilvæg uppbygging glutrast niður? Það að skera niður í nýsköpun getur kostað gríðarlega mikið til lengri tíma litið. Ég spyr hvort hæstv. ráðherra hafi skoðað þetta og geti þá bent okkur á tölur hvað það varðar og líka hvort frummælandi að málinu, hv. þm. Svandís Svavarsdóttir, hafi skoðað það sjálf.

Ég vil líka benda á Nýja sýn, sem er skýrsla um breytingar á vísinda- og nýsköpunarumhverfinu, sem var gerð í desember 2012 af RANNÍS að frumkvæði forsætisráðuneytisins og Vísinda- og tækniráðs. Þar kemur fram að mikið fjármagn er veitt til rannsókna og þróunarstarfs hlutfallslega og fáar þjóðir hafa náð jafngóðum árangri í birtingu vísindagreina miðað við höfðatölu. En árangur á sviði verðmætasköpunar í atvinnulífinu, með þessar upplýsingar og með þessa nýsköpun, er sérstaklega lakur þannig að það er spurning hvort ekki þurfi að verða áherslubreyting. Ég mundi líka vilja heyra frá hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra hvað þetta þýðir.