143. löggjafarþing — 15. fundur,  4. nóv. 2013.

framtíð rannsóknarsjóða og nýsköpunar.

[16:08]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf):

Virðulegi forseti. Öllum er ljóst að ástandið á Íslandi er erfitt og að það þarf að sníða sér stakk eftir vexti. Þegar sníða þarf af stakknum er mikilvægt að gera það vandlega og sníða rétt af honum, sníða ekki þannig af stakknum að hann detti í sundur.

Í sögulegu tilliti hefur íslenskt atvinnulíf einkennst af einhæfni og íslenskt þjóðlíf frekar af fátækt og hokri. Síðustu áratugi höfum við þó séð gífurlega velsæld á Íslandi. Hún byggir auðvitað á auðlindum okkar en hún byggir ekki síður á því að við höfum eignast fjölbreyttara samfélag og þá höfum við notið hugvits og vísinda.

Það skiptir máli hvernig er forgangsraðað og fjárlög eru stærsta forgangsröðun stjórnvalda. Ég heyrði ekki betur á ræðu hæstv. menntamálaráðherra hér áðan en að hann væri sammála um að nýsköpun og rannsóknir væru forsenda framfara. Maður hefur stundum á tilfinningunni í allri umræðu um fjárfestingaráætlun síðustu ríkisstjórnar að aðalatriðið sé ekki tillögurnar sem í þeirri áætlun fólust eða tillögurnar sem liggja undir heldur eignarhaldið, þ.e. hver kom með þessa hugmynd.

Það er vissulega ákvörðun að ákveða að lemja hausnum við stein en þá skiptir miklu máli hvaða stein maður velur því að þeir eru misjafnir. Sumir eru harðir og örðóttir en aðrir eru mosavaxnir og ávalir. Það skiptir máli að við hugsum til framtíðar, að við tökum ekki ákvarðanir út frá því hvaðan hugmyndin kemur heldur hver hún er.