143. löggjafarþing — 15. fundur,  4. nóv. 2013.

framtíð rannsóknarsjóða og nýsköpunar.

[16:11]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Svandísi Svavarsdóttur fyrir að hefja þessa umræðu um rannsóknir og nýsköpun. Í mínum huga skipta nýsköpun og rannsóknir öllu máli fyrir þróun samfélagsins. Ég hef lauslega kynnt mér skýrsluna Ný sýn – Breytingar á vísinda- og nýsköpunarkerfinu, frá því í desember 2012. Í þeirri skýrslu er gerð ítarleg grein fyrir rannsóknar- og nýsköpunarumhverfinu hér á landi en jafnframt eru þar skynsamlegar tillögur sem vert er að vinna áfram með.

Það er hins vegar þannig að við höfum ekki úr ótakmörkuðu fjármagni að spila. Ef við förum aðeins yfir síðustu ár var niðurskurður á fjárveitingu til Rannsóknasjóðs á árunum 2008–2012 en síðan fékk sjóðurinn aukið fjármagn árið 2013 og er það vel. En í fjárlögum fyrir 2015 stígum við eitt skref til baka þótt fjármagn til sjóðsins verði enn þá meira en það var á árinu 2012.

Það hefur samt sem áður komið skýrt fram hjá hæstv. ráðherra og í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar að efla skuli rannsóknir og nýsköpun um leið og færi gefst til. Ég trúi því að þangað komumst við.

Það kemur m.a. fram í skýrslunni að mikilvægt sé að samþætta betur menntun, atvinnulíf, nýsköpun og rannsóknir á Íslandi. Við höfum séð jákvæðar breytingar í þessa átt á síðustu árum, en mikilvægt er að finna leiðir til að styðja við þá þróun og koma á réttu hvötunum til þess að það samstarf megi eflast.

Mig langar aðeins að koma með inn í umræðuna mikilvægi annarra skólastiga, grunnskólans og framhaldsskólans, við að undirbúa og vekja áhuga á rannsóknum og nýsköpun sem gerist best í reglulegu skólastarfi, en einnig í (Forseti hringir.) sérstökum verkefnum eins og t.d. Lego-keppninni og nýsköpunarkeppni grunnskólanna.