143. löggjafarþing — 15. fundur,  4. nóv. 2013.

efling skákiðkunar í skólum.

57. mál
[16:18]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra um eflingu skákkennslu í skólum. Þannig er mál með vexti að skákiðkun, skákíþróttin eða skáklistin, eða hvað við köllum það, hefur staðið í miklum blóma undanfarin missiri og það má þakka Skákakademíunni sem hefur unnið mikið starf ekki síst í Reykjavík, Skáksambandi Íslands og Skákskóla Íslands sem hafa verið að vinna að því að kynna skáklistina fyrir ungmennum. Á sínum tíma, ekki síst fyrir mikla hvatningu þessara aðila, var farið af stað með það í menntamálaráðuneytinu að vinna skýrslu um hvernig mætti efla skákkennslu í skólum þannig að boðið yrði upp á hana fyrir sem flesta. Og nú þykist ég vita að hæstv. ráðherra sé mikill áhugamaður um eflingu skáklistarinnar og hafi sýnt henni áhuga á tíma sínum í embætti.

Skilað var skýrslu um þessi mál þar sem meðal annars var rætt um hvernig mætti fara í það að velja hreinlega tilraunaskóla og bjóða upp á skákkennslu, fyrst í völdum skólum og meta síðan reynsluna af því og breiða svo þessa kennslu út til allra skóla. Hægt væri að vinna mjög einföld verkefni til að mynda með því að kenna kennurum að kenna skák og síðan gæti einn skákumsjónarmaður eða tiltekinn skákkennari, tilnefndur í hverjum skóla, annast kennslu og æfingar í hverjum skóla. Hægt væri að virkja tengslanet skákkennara á milli skóla og væri mikilvægt að sjálfsögðu að hafa aðgengi að töflum og skákklukkum og síðan væri efnt til skákmótaraðar á vettvangi grunnskólanna. Síðan yrði unnið að því að efla ímynd skáklistarinnar, vegur og virðing hennar aukin með því að fá talsmenn sem mundu höfða til aldurshópsins.

Um þær tillögur sem skilað var af hópnum má eiginlega segja að ef litið er fljótt yfir þær þá eru þetta ekki rándýrar tillögur. Þetta má í raun og veru vinna með tiltölulega litlum tilkostnaði. En það sem kom fram líka og var svo merkilegt í skýrslunni er að það eru alveg gríðarlegir kostir sem fylgja því að efla skáklistina hjá ungmennum, vegna þess að það að tefla skák eykur einbeitingu, það þjálfar tilteknar tegundir rökhæfni sem skiptir máli sem er kannski ekki unnið með á öðrum hefðbundnari sviðum grunnskóla. Mér fannst þetta líka vera góð leið til þess að efla skákkennslu án þess að fara í umfangsmiklar breytingar á námskrám eða öðru slíku, þ.e. flétta þetta inn með því að nýta sér það mikla grasrótarstarf sem er fyrir.

Mig langar því að inna hæstv. ráðherra eftir því hvort hann sjái fyrir sér að áfram verði unnið með þessar tillögur og hvort einhverra fregna sé að vænta af þeim á næstunni.