143. löggjafarþing — 15. fundur,  4. nóv. 2013.

efling skákiðkunar í skólum.

57. mál
[16:26]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Ég vil þakka bæði hv. fyrirspyrjanda og hæstv. menntamálaráðherra fyrir þetta mál. Mér finnst mjög mikilvægt að hæstv. menntamálaráðherra lýsi því yfir að hann hafi áhuga á því að hrinda þessu verkefni í framkvæmd. Ég er sannfærður um að með sömu skapandi hugsun og menn þurfa að beita við manntafl þá mun hæstv. menntamálaráðherra finna ráð til þess. Manntafl er sannarlega íþrótt en það er líka list. Það byggir ekki bara á hefðbundinni rökhugsun heldur er vel teflt manntafl þannig að það byggir á hinu óvænta og lýsir upp tilveru allra þeirra sem njóta með einhverju sem enginn býst við. Það er sköpun og það er það sem hæstv. menntamálaráðherra þarf í þessu. Hann hefur góðan vilja en hann þarf skapandi sýn á málið. Ég er sannfærður um að ef hæstv. ráðherra leggur sig fram þá mun hann finna það smáræði sem þarf til þess að hrinda tilraunaverkefninu í framkvæmd. Ég lýsi því yfir fyrir mína hönd og minna pólitísku vandamanna að allt verður gert til þess að hjálpa hæstv. menntamálaráðherra til þess.